<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, nóvember 30, 2003

Einn af göllunum við það að brenna jafn miklu (ef ekki meiru) en Larry Kubiac, en vera samt bara 55 kg, er sá að maður hefur enga forðaorku. Þannig að þegar maður er búinn að nýta alla orkuna úr síðustu máltið þá verður maður svangur og þarf að borða.. STRAX! Núna er ég í vinnunni. Var fenginn til að vinna í nótt og vera í staðinn í fríi á morgun. hmmm 12 tíma næturvakt eða 8 tíma dagvakt, ekki spurning hvort maður tekur. Fínt að fá smá auka pening. Veitir víst ekkert af því ef maður er á leiðinni í skóla á annaðborð. Eini gallinn er að þegar maður er á vaktinn, og þá sérstaklega næturvaktinni, þá er maður fastur í húsinu, getur t.d. ekki skroppið út í sjoppu. Sem er slæmt þegar maður er svangur. Verð reyndar leystur af klukkan hálf fjögur í nótt og get skotist þá út á Lélegt (Select fyrir þá sem fatta það ekki). En það er ekki fyrr en eftir fjóra tíma, og þá verður skaðinn skeður. Verð örugglega orðinn heilu kílói léttari og það er sko ekkert grín að ná því aftur skal ég segja ykkur. Oh, ég finn hvernig ég er allur að veslast upp, sjónin er farin að veraða óskýr af lágum blóðsykri. Farinn að sjá ofsjónir og heyra raddir: "He.. Hermaur!" Hey þetta er Eyþór Arnalds! Vá þvílíkir litir. Gaahhhhh!

Búinn að laga bankið í SAABinum. Það var "bara" laus felgubolti. Betra að muna eftir að fullherða boltana áður en maður fer að keyra. Allavegana gott að þetta var ekkert meira... og að ég missti dekkið ekki undan á ferð.
Búinn að vaska soldið upp, en á samt smá eftir enn. Fann meðal annars rauðvínsglös sem einhverntíman hefur verið drukkið rauðvín úr. Ég man ekki einusinni hvenær ég drakk síðast rauðvín. Einn mánuður? Tveir? Uss ég held það væri meira vit í að gera eins og maðurinn í sögunni (hvort sem hún er sönn eða ekki); kaupa tvær uppþvottavélar. Eina fyrir skítugt og hina fyrir hreint. Svo bara þvær maður til skiptis. Þarf ekki einusinni að vera með skápa undir leirtauið.

laugardagur, nóvember 29, 2003

Síðasti Esperanto tíminn var á fimmtudaginn. Á þessu stutta námskeiði náðum við að fara í gegnum alla málfræðina í málinu. Þannig að núna þarf maður bara að halda áfram að æfa sig í henni og bæta við sig orðaforða. Á föstudaginn næsta verður svo fundur hjá Esperanto félaginu eða Aroro [borið fram: ároro] eins og það heitir. Ég ætla að sjálfsögðu að mæta og skrá mig í félagið. Ég ætla að reyna að vera duglegur og hlada áfram að æfa mig og ná sæmilegum tökum á málinu. Keypti t.d. í þeim tilgangi Njálu á Esperanto, en hún er ný komin út í þýðingu Baldurs Raganrssonar sem var einmitt kennarinn okkar á námskeiðinu.

föstudagur, nóvember 28, 2003

Þó svo ég sé mikið fyrir þungarokk og alminnilegan metal, þá hef ég líka gaman að einstaka hljómsveitum og listamönnum úr öðrum tónlistarstefnum. Björk er til dæmis í miklu uppáhaldi hjá mér. Tónlistin hennar er alveg meiriháttar og svo er eitthvað í textunum hjá henni sem snertir mig alveg sérstaklega. Hérna er textinn úr Hyper-Ballad af Post, ég tók hann af letssingit.com þannig að ég ábyrgist svo sem ekki að hann sé hundrað prósent réttur. En mér sýnist svona í fljótu bragði að hann sé það. Ég klippti samt út endurtekningarnar í laginu.

We live on a mountain
Right at the top
There's a beautiful view
From the top of the mountain
Every morning I walk towards the edge...
And throw little things off
Like car-parts, bottles and cutlery
Or whatever I find lying around.

It's become a habit
A way
To start the day

I go through all this
Before you wake up
So I can feel happier
To be safe up here with you

It's early morning
No-one is awake
I'm back at my cliff
Still throwing things off
I listen to the sounds they make
On their way down
I follow with my eyes 'til they crash
I imagine what my body would sound like
Slamming against those rocks
And when it lands
Will my eyes be closed or open?

I go through all this
Before you wake up
So I can feel happier
To be safe up here with you

Úff búinn að brenna 79 geisladiska í dag (einn var gallaður). Það var ekki gaman. Maður er alveg tómur í hausnum eftir svona leiðinlegt verkefni. Náði reyndar loksins að hitta á yfirnanninni minn og ræða við hann um möguleika á að vera í launalausu leyfi eftir áramótin. Hann tók nú ekkert illa í það, en ég þarf samt að senda honum eitthvað erindi um þetta, og svo þarf að athuga hvort ég eigi rétt á þessu (kjarasamninga dæmi eitthvað) og hvort það sé hægt að verða við þessu. Þetta kemur vonandi í ljós fljótlega.

Annars eru aftur æfingabúðir nú um helgina, aðra helgina í röð. Núna er Breiðablik að flytja inn tvo þjálfara. Þetta verða reyndar mun minni æfingar en um síðustu helgi. Bara einn og hálfur tími á dag, þannig að manni ætti að gefast nægur tími í að fara í allt sem hefur setið á hakanum hjá mér undanfarið. Verð að fara í endurvinnsluna með allar kókflöskurnar og þetta flóð af fréttablöðum, ótrúlegt hvað þetta safnast upp, get ekki ímyndað mér hvernig þetta er hjá Johnny með áskrift að Mogganum og DV líka. Tómt rugl sko. Svo bíður hvíti SAABinn alltaf eftir því að ég fari í gegnum restina af draslinu í honum, skrúfi dekkin aftur undir og dragi hann á haugana. Svo er líka farið að heyrast ljótt bank í SAABinum mínum. Verð að líta á það líka um helgina... og þrífa hann og bóna, og skipta um framljós og ljósaperu.. og fara með hann í skoðun... Uss þetta verður enginn afslöppunar helgi hjá mér eins og ég hafði vonað.

miðvikudagur, nóvember 26, 2003

Ég fékk þrjú email frá einhverri Stacy áðan. Titillinn á þeim öllum var sá sami: Tiny teen pussy streached around FREAKISHLY large cocks. Ég eyddi öllum bréfunum án þess að opna þau. Ég sé soldið eftir því núna. Kanski er Stacy einhver sem hefur samskonar húmor og ég og finnst fyndið að setja einhver svona haus á venjulegt email, til að stríða fólki. Kanski er Stacy sæt stelpa sem vildi bara bjóða mér í bíó. Kanski er Stacy systir hennar Ali? En kanski var þetta bara SPAM, bara auglýsing fyrir klám síðu sem er alveg ókeypis. Þarft bara að gefa þeim upp kreditkortanúmerið þitt til að þeir geti staðfest að þú sért orðinn sjötugur og megir horfa á klámmyndir. Klámmyndir sem mætti nota til kennslu í kvensjúkdómalækningum.

þriðjudagur, nóvember 25, 2003

Ég skrapp upp í Tækniháskóla Íslands áðan. Kiddi rölti með mér einn hring um skólan og sýndi mér aðstöðuna. Þetta virðist vera ágætis skóli, frekar lítill samt, en viðkunnalegur. Svona mitt á milli MH og Való einhvernveginn. Vélaverkstæðið var samt lokað þannig að ég gat ekki skoðað það. Hitti svo námsráðgjafa og spurði hana aðeins út í námið og munin á véltæknifræði og vélaverkfræði. Hefði svo sem geta sagt mér það sjálfur, en véltæknifræðin er minna fræðileg og meira miðuð við vinnumarkaðinn. Sem sagt minni stærðfræði og meiri praktískir áfangar. Helstu gallarnir sem ég sé við að fara í THÍ í staðinn fyrir HÍ, er að skólinn er ógeðslega langt í burtu, 20-25 mínútna akstur hvora leið í stað 3-5 mínútna í HÍ, og svo er ekki hægt að byrja nema á haustin. Þetta gefur mér aftur á móti þann möguleika að byrja í HÍ eftir áramótin og sjá hvernig mér líkar það, eða að halda áfram að vinna fram á haustið og reyna að safna peningum. Verkfræðin er aftur á móti betri undirbúningur fyrir það sem mig langar að stefna á (t.d. eitthvað í þessum dúr). Svo væri líka hægt að klára véltæknifræðina og fara í mastersnám í véla- eða rafmagns og tölvuverkfræði, með áherslu á sprengihreyfla... hmmmmm. Maður ætti kanski bara að hætta að spá í þessu takmarkaða námi hér heima, og fara að skoða skóla erlendis. En þá þarf maður að öllum líkindum að fara að læra nýtt tungumál... og það er erfitt. Ákvarðanir á ákvarðanir ofan.

Svo langar mig líka á gasshuku í Noregi í desember, en mig langar samt enn meira á Budosai í Naha borg á Okinawa, í lok júlí í sumar. Eini gallinn er að það kostar einhversstaðar á milli 200.000 og 250.000 kr.! Nú er bara að fara að plotta hvernig maður geti gert þetta alltsaman. Hver vill gefa mér pening?

testing testing... one two 3, one 2 three...BLOGGER

mánudagur, nóvember 24, 2003

Ég sagði fyrir nokkrum vikum að ég hefði ákveðið að fara í skóla eftir áramót. Ég var þó strax eftir það kominn með bakþanka aftur og farinn að velta því fyrir mér hvort þetta væri rétt ákvörðun. Eða nei, fuck that, ég engdist um af kvölum og angist yfir þessari helvítis ákvörðun, hef ég efni á þessu, gæti ég meikað það að flytja inn til foreldra minna, gæti ég meikað að halda áfram að vinna...

Ég komst að tveimur niðurstöðum núna áðan. Annarsvegar þá ætla ég að halda mig við fyrri ákvörðun og fara í skóla. Hinsvegar komst ég að því afhverju ég hef átt svona erfitt með þessa ákvörðun. Ég er skít hræddur um að ég eigi eftir að klúðra þessu, eins og ég klúðraði eðlisfræðinni, tölvunarfræðinni og flugumferðarstjórninni, og sérstaklega er ég hræddur við hvað eigi eftir að gerast ef ég klúðra þessu (og miðað við fyrri reynslu eru allar líkur til þess að ég geri akkurat það). Ég á þá pottþétt eftir að missa allt álit á mér (þennan litla snefil sem er eftir, þ.e.a.s.) og leggjast í enn eitt þunglyndiskastið. Þannig að... það er eins gott að ég klúðri þessu ekki í þetta skiptið.

Í öðrum fréttum þá beyglaði ég aftur litlutána í gær. Þessa sömu og ég slasaði um daginn. Er ekkert bólginn og blár núna eins og síðast, en alveg jafn illt í henni samt.

Bloggið hjá mér hefur annars verið svo uppbyggilegt og jákvætt eitthvað upp á síðkastið að ég held ég verði bara að henda inn einu máltæki úr þeirri stórskemmtilegu bók, The little book of despair.

Eat well, stay fit

...die anyway.

laugardagur, nóvember 22, 2003

Tékkið á þessu!

Bitur færsla nr.1
Þegar maður er með mjólkursykuróþol, þarf maður að nota soyja mjólk út á morgunkornið í staðin fyrir venjulega mjólk. Soya mjólk hefur eftirfarandi kosti fram yfir venjulega mjólk: Hún geymist í tíu mánuði á meðan mjólkin geymist í fimm daga.

í mörg ár hékk uppi á töflu í herberginu mínu fax brandari. Þetta var mynd af stork að reyna að gleypa frosk. Storkurinn var kominn með froskinn í gogginn, en froskurinn var ekki á því að gefast upp og var að kirkja storkinn með framlöppunum. Efst á blaðin stóð svo stórum stöfum: Never, ever, give up. Þett fanst mér góð speki og reyndi að muna eftir henni hvenær sem mig langaði að gefast upp á einhverju, og gjarnan tókst mér meira að segja að halda áfram í smá stund lengur.

Í dag lifi ég ekki eftir þessari speki lengur. Í staðinn er ég bara bitur.

föstudagur, nóvember 21, 2003

Lærdómur dagsins er: Njótið lífsins áður en það er um seinan.

Amma eins æfingafélaga míns, þá 92 ára gömul, sagði einusinni við hann: Mýmir (hann hefur verið u.þ.b. 30 ára, kanski 35), við erum jafn gömul, þú og ég. Þetta líður á augnabliki.

Ég held að það sé töluvert til í þessu hjá gömlu konunni. Manni finnst tíminn alltaf líða hraðar eftir því sem maður eldist. Eins gott að maður læri strax að njóta lífsins, því tíminn manns verður útrunninn áður en maður veit af.

Það var einhver annar í karatefélaginu sem sagði mér þessa sögu. Hún er um sjómann. Hann átti litla trillu og réri út á henni á hverjum degi á morgnana. Hann kom svo aftur í land upp úr hádegi með fullan bát af fiski, landaði honum og seldi. Seinnipart dagsins gat hann svo nýtt til að ditta að bátnum, skreppa á krána, eða fara út með eiginkonu sinni. Svona gengur þetta hjá honum þar til dag einn að viðskiptafræðingur nokkur gefur sig á tal við hann:
'Þú ættir að fá þér annan bát og ráða mann í vinnu til að gera hann út.'
'Hversvegna ætti ég að gera það?'
Spyr sjómaðurinn.
'Nú, þannig gætir þú aukið tekjur þínar og keypt enn fleiri báta.'
Svaraði viðskiptafræðingurinn.
'Og hversvegna ætti ég að vilja það?'
'Svo þú getir stofnað útgerð, og þegar hún er orðin nógu stór gætir þú sett hana á markað. Svo eftir nokkur ár gætirðu selt hlutabréfin og þannig grætt mikla peninga.'
'Og hvað ætti ég þá að gera?'
'Ja, þá gætirðu farið að taka því rólega. Farið með konuna út að borða, skroppið út á krá eða gert það sem þig langar til.'
'Já en hvers vegna ætti ég að strita í mörg ár til þess eins að geta svo slappað af, þegar ég get slappað af nú þegar?'


Ef maður er ánægður í því sem maður er að gera (og hefur nægar tekjur til að framfleyta sér), þá ætti maður ekki að hafa áhyggjur af því að maður gæti verið að græða meiri peninga með því að fara í eitthvað annað. Það er svo miklu betra að njóta augnabliksins (svo er maður víst orðinn 92 ára þegar það er búið).

fimmtudagur, nóvember 20, 2003

Þessa vikuna hef ég þurft að mæta klukkan 8 í vinnuna (er venjulega með sveigjanlegan vinnutíma þannig að ég vinn bara átta tíma á dag en ræð því hvenær ég mæti... innan skynsamlegra marka þó), sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, nema fyrir það að þetta þíðir auðvitað að ég sef soldið minna en venjulega. Í einhverju bjartsýniskasti hélt ég að þetta væri gott tækifæri til að koma einhverju lagi á svefninn hjá mér. T.d. að vera alltaf kominn upp í rúm milli ellefu og hálf tólf. Ég hefði nú átt að vita betur, hafandi farið að sofa níuþúsund og eitthvað sinnum. Í stað þess að verða smátt og smátt þreyttari á kvöldin eftir því sem hefur liði á vikuna, þá hefur ekkert breyst, ég er alltaf jafn hress á kvöldin. Aftur á móti hefur orðið erfiðara að vakna á morgnana og ég hef orðið æ þreittari yfir daginn, eftir því sem vikan hefur liðið. Kvöldin hafa aftur á móti ekkert breist. Ég virðist ætla að vera næturhrafn til æfiloka. Oh well, það er kanski ekki svo slæmt, ábyggilega skárra en að vera morgunhani og sofna alltaf fyrir framan sjónvarpið á kvöldin. Gæti ekki hugsað mér lífið án þess að geta vakað á nóttunni. Maður er einhvern veginn miklu frjórri á nóttunni. Flesta af áhugaverðustu samtölunum og umræðunum sem ég hef lent í um æfina, hafa verið á nóttunni, og þá gjarnan fram á morgun.
merkilegt hvernig maður getur verið hressari klukkan átta á morgnana ef maður er búinn að vaka í sólarhring, heldur en þegar maður er ný vaknaður.

Pínku meira um trúarbrögð. Ég veit að þetta er farið að hljóma eins og einhver þráhyggja hjá mér, en ég held að ég sé ekki enn orðinn svo slæmur. So here goes...

Það sorglega við svona fréttir, er að trúaðir sjá enga samsvörun hjá sér við fólkið í fréttinni, og finnst þetta því alveg jafn fáránlegt og okkur trúleysingjunum. *andvarp*

þriðjudagur, nóvember 18, 2003

Einar frændi bjargaði mér frá því að vera farinn upp í rúm fyrir ellefu. Hann loggaði sig inn á m$n rétt eftir að ég setti inn síðustu færslu og ég spjallaði við hann til miðnættis. Það er semsagt allt eðlilegt ennþá. Jæja ég verð víst að klára vinnuskýrsluna mína áður en ég fer heim, ekki það að heima bíði mín einhver afslöppun. Öðru nær, ætla að vera duglegur og vaska upp (og þá sjaldan að ég vaska upp er það eins og uppvask á stóru hóteli) og taka til í íbúðinni. Alltaf þegar símin eða dyrabjallan hringir fæ ég sting í magan og held að það sé heilbrigðiseftirlitið komið til að loka íbúðinni. Svo er það annað hvort Esperanto eða meiri tiltekt í hvíta Saabinum í kvöld.

mánudagur, nóvember 17, 2003

Þegar maður er með mjólkursykuróþol, á maður ekki að gleyma mjólkursykureyðipillunum heima.
Þegar maður er með mjólkursykuróþol og gleymir mjólkursykureyðipillunum heima á maður ekki að fá sér pasta með rjóma osta sósu í hádeginu. Og sérstaklega á maður ekki að fá sér auka skammt af pasta með rjóma osta sósu.

Er búinn að vera alveg ónýtur í magan frá því seinnipartinn í dag. Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að ég er búinn að vera svona sljór í hausnum í allan dag. Þetta og kanski smá af því að ég er ekki búinn að sofa alveg nógu mikið, en það er nú ekkert nýtt þannig að ég hefði alveg átt að geta fúnkerað þó svo ég væri soldið þreittur. Fékk mér líka eitthvað um 450 mg af koffíni í dag, og venjulega er það nú meira en nóg til að halda mér í fínum gír. En ekki í dag, þökk sé fávitanum mér að fá sér rjóma osta sósu í hádegismatinn. Var líka alveg eins og aumingi á æfingunni, var alveg úti á þekju í öllum æfingun og gat ekkert í kumite. Náði mér samt á strik í svona fimm mínutur á meðan við gerðum kata. Gerði bara held ég bestu kata sem ég hef nokkur tíman gert, svei mér þá, en var svo strax aftur orðinn eins og undin tuska.

Uss ég held ég drífi mig bara beint í bólið, og klukkan ekki einusinni orðin ellefu. Þetta gerist nú ekki oft.

Fór með draslið í Sorpu, henti fjórum filmum í framköllun og fékk mér svo kók og pylsu á lectaranum. Þetta breytti samt engu, ég veit alveg jafn lítið hvað ég á að gera með þetta lið á morgun. Er hættur þessu rugli í bili og farinn í karate, geri sennilega úrslitatilraun til að undirbúa mig, eftir æfinguna.

Djöfull er ég eitthvað eirðarlaus. Er að reyna að búa til eitthvað kennsluefni fyrir morguna daginn. Ég get bara einhvern veginn ekki einbeitt mér að þessu, hausinn á mér er einhvernveginn alveg í hassi, svona ein grá flatneskja. Þarf að blaðra í 4 tíma fyrir vinnufélaga mína sem hafa engan áhuga á að hlusta á mig... og ekki á það eftir að skána ef mér tekst ekki að undirbúa mig almennilega út af einhverri andlegri myglu.

Var annars duglegur í gær og fór í gegnum allt draslið sem var inni í hvíta saabinum. Náði að fylla skottið á GLE og svartan ruslapoka með því sem ég ætla að henda í fyrstu atrennu. Á svo eftir að fara í gegnum allt draslið í skottinu á hvíta líka. Ætlaði svo út í Sorpu með draslið, en þá var búið að loka tuttugumínútum áður. Kanski ég fái mér bara rúnt núna út í Sorpu með draslið og fái mér eina kók í leiðinni. Sjá hvort það hressir mig ekki. Annars er ég orðinn svo mikill koffín fíkill að ég er orðinn hálf ónæmur fyrir áhrifunum. Spurning um að fara út í eitthvað sterkara? Eru amfetamínsterar ekki bara málið? Verða hel massaður og hýper í leiðinni, öskra svo á alla sem koma með verkefni til mín í vinnunni og slíta hausinn af þeim sem ég sé skella hurðunum utan í SAABinn. Hljómar ekki svo vitlaust. Spyr kallana í Sorpu hvort þeir þeir geti ekki reddað mér amfetamínsterum.

sunnudagur, nóvember 16, 2003

Ég sagðist áðan ætla að svara spurningunni afhverju trúleysingjum væri svona illa við trúarbrögð, en ég get það auðvitað ekki. Ég get bara svarað fyrir mig; afhverju mér er illa við trúarbrögð og vil sjá þau hverfa út úr þjóðfélaginu, nema auðvitað sem hluti af sögunni. Trúarbrögð hvetja til fordóma. Biblían fordæmir t.d. samkynhneigða, og gerir lítið úr konum. Vissulega er alltaf hægt að setja þann fyrirvara að það megi túlka allt fram og til baka í Biblíunni, en engu að síður stendur orðrétt í þriðju Mósebók Leviticus 18:22 "Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð." Í Leviticus 20:13 stendur svo að kynlíf homma sé blóðsök (hvað sem það nú þýðir) og að þeir skulu líflátnir. Ég er nú að vísu ekki samkynhneigður, en ég er afskaplega feginn því að ég bý ekki í samfélagi sem tekur þetta alvarlegar en raun ber vitni. Nokkuð er mismunandi hvernig kristnu trúfélögin taka á þessu vandamáli, Íslenska Kristkirkjan telur samkynhneigð ekki vera synd fyrr en farið er að lifa eftir henni eða hugsa "saurugar" hugsanir henni tengdri(1). Afstaða Krossins er held ég öllum kunn. Afstaða þjóðkirkjunnar er þó eitthvað óljósari, í það minnsta tókst mér ekki með stuttri leit á netinu að finna neina opinbera afstöðu þjóðkirkjunnar til samkynhneigðar, en þar sem þjóðkirkjan hefur aldrei, mér vitanlega, gagnrýnt samkynhneigð opinberlega, og því síður stundað aftökur á þeim, þá held ég að það sé óhætt að álykta sem svo að þjóðkirkjan sé ekki sammála þessu boði Biblíunnar. En þar með er þjóðkirkjan komin í vandræði, ef Leviticus 18:22 og 20:13 eru rangir hvað þá með aðrar ritningagreinar? Hvaða aðferðum eigum við að beita til að vita hvaða ritningagreinar eru réttar? Má trúaður einstaklingur hundsa þær ritningargreinar sem henta honum ekki?
Þetta litla dæmi er næg ástæða fyrir mig til að skrá mig úr þjóðkirkjunni (enda löngu búinn að því). Annað hvort er að fordæma samkynhneigða og helst taka þá af lífi, eða að maður megi sleppa sumum ritningargreinum þegar það henntar. Sjá ekki allir að það er ekki heil brú í þessu? Í Biblíunni er aragrúi svona dæma, hér má finna mörg fleiri ef þið hafið áhuga. Ef þið eruð ekki enn sannfærð þá hvet ég ykkur til að pæla aðeins í eftirfarandi orðum Stephen F. Roberts:


"I contend we are both atheists, I just believe in one fewer god than you do.
When you understand why you dismiss all the other possible gods,
you will understand why I dismiss yours."


Ég held ég láti staðar numið hér í bili, enda alveg kominn með nóg af þessu bulli.

Meira af trúleysi
Þó svo að æ fleiri kjósi trúleysi fram yfir trú á einhverja óljósa(r) æðri veru(r), þá er enn mjög langt í land í að trúlaus samfélög séu orðin staðreynd. Víða tengja stjórnmála flokkar sig vinsælustu trúarbrögðunum á hverjum stað til að auka fylgi sitt, og þar með er það orðið þeirra hagsmunamál að sem flestir trúi og flokkurinn geti þar með hugsanlega náð sér í atkvæði út á það. Það virðist vera manninum eðlislægt að sækjast eftir völdum, og fólk leggur mikið á sig til að ná einhverskonar völdum, og ekki síður til að halda þeim. Þetta er ein af ástæðum þess að ég held að ég eigi ekki eftir að lifa það að sjá Ísland, eða eitthvert annað land, sem fyrst og fremst trúlaust samfélag. Kirkjan, pólitíkusar og einstaklingar sem hafa hagsmuna að gæta innan kirkjunnar, munu berjast gegn þessari þróun og reyna að vernda það sem þeir standa fyrir, og þar með að vernda stöðu sína og völd innan samfélagsins. Þetta breytir því þó ekki að þróunin er komin af stað og boltinn farinn að rúlla. Stjórnmálaflokkarnir hafa neyðst til að taka afstöðu til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Eins og búast mátti við þá eru ríkisstjórnarflokkarnir algjörlega mótfallnir aðskilnaðinum, sem og biskupinn og ríkiskirkjan. Frjálslindir og Samfylkingin eru fylgjandi aðskilnaði en Vinstri-Grænir virðast forðast að taka afstöðu um málið (sennilega eru menn ósammála um málið innan flokksins).
Það er ekki bara á Íslandi sem trúleysingjar eru loksins farnir að láta heyra í sér og berjarst gegn þeirri mismunun sem trúleysingjar í trúuðum samfélögum eru beittir. The Brights eru nýlega stofnuð samtök sem vilja safna saman undir einu merki trúleysingjum (eða öllu heldur fólki sem er laust við trú á öll hindurvitni og yfirnáttúrulega hluti; skoðið síðuna til að fá betri mynd af meiningum þeirra) heimsins og mynda þannig stóran þrýstihóp sem getur látið heyra í sér á opinberum vetvangi og vonandi haft þannig áhrif á stjórnmálin og samfélagið. Ég hvet ykkur hér með til að skrá ykkur í félagið og leggja þar með ykkar af mörkum til betri heims.

En hvers vegna erum við trúleysingjar svona á móti trúarbrögðum? Mega trúaðir ekki fá að hafa sín trúarbrögð í friði? Hvað er svona slæmt við trúarbrögð og trú? Þessum spurningum ætla ég að svara í þriðja og vonandi síðasta pistlinum mínum um trúleysi. Ég ætla að reyna að fara að gera eitthvað af viti og byrja að fara í gegnum varahlutalagerinn minn og velja úr honum hvað ég ætla að eiga og hverju ég ætla að henda (byrja segi ég vegna þess að það er miklu stærra verk en svo að maður geti klárað það á einum sunnudagseftirmiðdegi). Mig langar að fara að losna við hvíta saabinn svo ég geti farið að leggja 900 GLE TURBO í bílageymslunni (þurfti sko að skafa og allt í gærmorgun, og því nenni ég sko ekki á morgnana þegar ég er að fara í vinnuna). Ef ég verð duglegur þá kanski þvæ ég og bóna GLE í leiðinni. Sjáum til.

föstudagur, nóvember 14, 2003

Það hafa verið töluverðar umræður um trú og trúleysi í gangi á netinu undanfarnar vikur. Sennilega hefur frumsýning á heimildarmynd um Helga Hóseasson og viðtöl við hann og aðstandendur myndarinnar hrint þessum umræðum af stað. Hér er mitt innlegg í þessa umræðu. Athugið að ég nota hér orðið kirkja um yfirbyggingu allra trúarbragða og miðlæga stjórn þeirra (s.s. presta, munka, páfa o.s.frv.) Ekki er átt við kristnar kirkjur nema það sé sérstaklega tekið fram. Trúarbrögð hafa fylgt manninum í ýmsum myndum frá árdögum mannsins. Hafa þau verið notuð til að skýra allt milli himins og jarðar í bókstaflegri merkingu. Norðurljós, stjörnuhröp, óveður, jarðskjálfta, eldgos, þurrka, flóð og allt sem menn skildu ekki. Trúarbrögðin hafa svo þróast og breyst í gegnum aldirnar eftir því sem þekking á náttúrunni og umhverfinu óx. Eftir því sem samfélagið hefur þróast og siðmenning tekið að myndast hafa trúarbrögðin einnig stækkað og styrkst. Strax frá upphafi hafa töluverð pólítísk völd fylgt trúnni, eða öllu heldur prestunum og galdramönnunum (kirkjunni). Galdramennirnir gátum kennt einhverjum í samfélaginu um að vera valdur að hinum ýmsu hörmungum og fyrirskipað að viðkomandi skildi fórnað eða hann sendur í burt, svo ástandið lagaðst. Þannig gátu þeir losað sig við óvini sína og keppinauta þar með og tryggt sér áframhaldandi völd. Þegar samfélagið stækkar og kirkjur fara að myndast utan um trúarbrögðin aukast þessi pólítísku völd til muna, og hafa í gegnum aldirnar gjarnan verið meiri en völd pólítískra yfirvalda (og eru það á sumum sviðum enn þann dag í dag). Eftir því sem vísinda þekking hefur aukist hefur þörfin fyrir trúna að sama skapi minnkað. Í dag vitum við að norðurljós stafa af áhrifum frá sólinni, en segja okkur ekkert um yfirvofandi hamfarir eða fæðingu spámanna eða neitt í þá veru. Kirkjur gerðu sér snemma grein fyrir þeirri hættu sem þeim stafaði af vísinudum og hafa stundum lagt sitt af mörkum til að hindra framgang þeirra, og er frægasta dæmið bannfæring kaþólsku kirkjunnar á Galileo Galilei og stuðningi hans við kenningar Copernikusar um að pláneturnar gegngju um sólu og þar með að jörðin væri ekki miðja sólkerfisins og því síður alheimsins. Kirkjan viðurkenndi svo árið 1992, 359 árum síðar, að þessi bannfæring hefði verið mistök. Í dag er staðan orðin sú að vísindin hafa algjörlega tekið við af kirkjum heimsins til að skýra náttúruna og fyrirbriggði innan hennar, og þar með upphaf heimsins og möguleg endalok. Síðasta hálmstráið sem trúaðir halda í er mögulegt líf eftir dauðan, en ómögulegt er að sýna fram á með nokkrum vísandlegum rökum hvort það sé staðreynd eður ey. En þar sem ekkert bendir til þess að svo sé kjósa æ fleiri að hafna þessum hugmyndum með öllu og leita frekar til vísindanna til að skýra daglega hluti. Við þurfum einfaldlega ekki á trúnni að halda lengur og því er hún smá saman að leggjast af.

Hér verð ég að setja punktinn í bili, en ég er ekki búinn og því verður framhald á þessu innan tíðar.

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Matrix Revolutions. Fór að sjá MR í gærkvöldi. Varúð, spoilerar framundan, bæði úr MR og Dune seriunni. Ég fílaði hana vel, og virðist vera einn af frekar fáum sem er á þeirri skoðun. Ætli fólk hafi ekki viljað heilalaust action þar sem Neo dræpi öll vondu forritin og eyðilegði Matrixið fyrir fullt og allt og allir lifðu áfram í endalausri djöfullsins hamingjugleði? Allavegana er myndin töluvert dýpri en það, og það er það sem ég var að fíla við hana. Fyrstu 30 til 40 mínúturnar eru reyndar ekkert mjög sterkar, bara meira af því sama. Endurtekning á því sem maður sá í fyrri myndunum tveimur, yfirblásnar action senur og meira að segja aftur svona skotbardagasena eins og í anddyrinu í M1. Lofaði ekki góðu. En restin af myndinn gerist svo að miklu leiti í raunveruleikanu, þ.e. fyrir utan Matrix-heiminn. Illa upplýstir hellar og drungaleg skipin. Allt er þetta mjög þunglyndislegt umhverfi, og skapar alveg stemninguna sem maður vill sjá í svona mynd. Það er svo eftir að Neo kemur aftur úr Matrixinu að myndin fer að rúlla. Neo tekur ákvörðun um að reyna að fórna sér fyrir frið milli manna og véla (hann gerir sér sjálfsagt grein fyrir því að hann geti aldrei unnið stríðið og útrýmt vélunum. Auk þess sem hann vill það sjálfsagt ekki lengur eftir að hafa hitt Sati og fjölskyldu hennar á lestarstöðinni). Svo er mjög sterkt vísað í Dune seriuna þegar Bane brennir augun á Neo og eins og Muad'dib þá sér Neo áfram þrátt fyrir það. En þrátt fyrir þessa endurspeglun á Muad'dib þá er Neo miklu frekar eins og Leto II. Muad'dib gat ekki stígið skrefið til fulls og fórnað sér fyrir mannkynið þrátt fyrir að vera meðvitaður um "gullna veginn", og verður sonur hans því að taka þá ákvörðun. Neo og Trinity fylgja svo leiðslunum þremur til 01 (borgar vélanna), þetta styrkir mig enn frekar í að Wachowski bræður séu að gefa til kynna að þeir hafi verið innblásnir af Dune seríunni (að leiðslurnar séu tákn fyrir gullna veg Leto II). Ástæðan fyrir því að hann verður að fara þangað til að tengjast Matrixinu, er auðvitað sú að þar getur hann samið við vélarnar um frið og þar er líka eini staðurinn þar sem hann getur verið viss um að hann geti ráðið niðurlögum Smiths (snilldarlega leikinn af Hugo Weaving). Með því að leyfa Smith að "samlaga" sig sér, gefur Neo móðurtölvunni beinan aðgang að Smith sjálfum og hún getur því eytt honum beint. Í blá endan er það svo gefið í skyn að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem svona friður kemst á og fyrir Véfréttinni er það alveg ljóst að hann á ekki eftir að vara að eilífu, en er á meðan er. Plottið er samt sem áður fullt af götum, en mér finnst það samt ekki koma að sök. Wachowski bræður eru að segja stóra og mikla vísindaskáldsögu og ég held að það hafi aldrei verið takmarkið þeirra að hafa handritið alveg skothelt. Hugo Weaving fær líka extra plús fyrir flottasta geðveikishlátur ever. Þrjár stjörnur af fjórum, fyrir flott útlit, skemmtilega sögu og góða tónlist. Handritið hefði mátt vera aðeins sterkara, sérstaklega fyrsta hálftíman.

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Ég er klaufi, ég hef alltaf verið klaufi, og á sennilega alltaf eftir að vera klaufi. En eins og allir klaufar vita, þá kemur klaufaskapurinn alltaf í gusum, aldrei jafnt yfir langt tímabil, heldur kanski ein mínúta þar sem allt gengur á afturfótunum. Ég tók svona móment á karate æfingu áðan. Fyrst var ég kíldur beint í augað, og til að minnka bólguna ákvað ég að það væri réttast að kæla svæðið (og nei ég er ekki alveg nógu heimskur til að hafa sprautað kælispreyi upp í augað á mér). Ég tók því handklæðið og hljóp með það fram að vaskinum til að bleyta það í köldu vatni, nema þegar ég er rétt að koma að vaskinum dúndra ég litlu tánni í dýnu sem var þar svo ég dett fram á vaskinn. Núna eru táin á mér og hægra kinnbeinið í keppni um hver getur bólgnað meira og orðið flottari á litinn. So far þá er kinnin að rústa lita keppninni, en bólgukeppnin er mjög spennandi, og svei mér þá ef táin er ekki öll að koma til í litakepnninni líka.

Netvandræðin mín í linux halda áfram, mig vantar sem sagt driver fyrir netkortið mitt. Það er innbyggt í móðurborðið og mér hefur ekki enn tekist að finna neinn driver á netinu. Er reyndar ekki búinn að leita neitt mjög lengi.

Kiddi kíkti svo til mín eftir æfinguna og við litum aðeins á stærðfræðina. Ég er búinn að bjóðast til að hjálpa honum með hana, gegn því að hann kenni mér eitthvað að elda í staðinn :) Það er fínn díll fyrir mig, ég læri að elda og rifja upp stærðfræðina áður en ég byrja í skólanum. Það kemur í ljós hvort Kiddi græði eitthvað á þessu.

Fór líka með bílinn í BJB í dag og lét smíða fyrir mig loftpípur í intercoolerinn. Get nú ekki sagt að ég finni mikinn mun á SAABinum, en hann togar þó aðeins meira. Það er samt eitthvað vandamál þegar ég fer yfir ca. 4000 snúninga í öðrum og þriðja gír. Það kemur eitthvað óhljóð í hann og aflið snar minnkar. Gæti verið að gamla bensíndælan ráði ekki við þetta aukna afl og þá fari vélin að banka og APCið kötti inn og minnki bústið. Ég verð að bjóða Nóna í bíltúr við tækifæri og spyrja hann álits.

Svo fékk ég líka bréf á lernu.net frá einhverjum í Ísrael. Hann (ég held það sé gaur, en er samt ekki alveg viss. Er ekkert alltof góður í þessum gyðinga nöfnum, en "hann" hét allavegana ekki Natali Portman) skrifar nottla á Esperanto og er byrjandi í því eins og ég, þannig að þetta var nú meira svona stutt kveðja, en ég sendi honum svar til baka. Það verður gaman að sjá hvort maður geti eitthvað notað Esperanto í svona bréfaskriftum þegar maður verður betri í þessu. Það verðu allavegana forvitnilegt að sjá hvaða lífsskoðanir ungt fólk í Ísrael hefur.

sunnudagur, nóvember 09, 2003

Búinn að vera duglegur í dag, þrátt fyrir andvökunótt. Það var svo mikill fótur í þessu kaffi sem ég drakk í gærkvöldi að ég sofnaði ekki fyrr en hálf sex. Ég hefði betur farið í bæinn í stað þess að bylta mér í rúminu. Vaknaði korter fyrir ellefu (korteri á undan vekjaraklukkunni! maður er orðinn gamall þegar maður er farinn að vakna á undan helvítis klukkunni) dreif mig í sturtu og fékk mér meira ofurkaffi. Fylltist við það gífurlegri orku og gerði aðra tilraun til að setja upp linux, nema í þetta skiptið tókst það (það klikkaði eitthvað í gær). Fór svo og þreif bílskúrinni eftir olíuleka viðgerð síðustu viku, endaði svo á því að fara í matarboð um kvöldið. Núna er ætlunin að halda áfram að stilla linux og takmarkið er að komast á netið áður en ég fer í bólið.

Aldrei drekka kaffi seint á kvöldin.

laugardagur, nóvember 08, 2003

Hvað er meira cool en að sitja á laugardagskvöldi fyrir framan tölvuna að installa linux, með pizzu í annari og kók í hinni?

föstudagur, nóvember 07, 2003

Death and hatred to mankind
Ég fór á Black Sabbath tribute á Gauknum í gær með Birki og Grétari. Það var helvíti fínt. Við mættum um hálf ellefu, þá var einhver hljómsveit að klára sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir. Þeir voru líka skít lélegir. Sólstafir tóku við af þeim. Þá var sko rokkað. Þeir tóku Sabbath alveg með sínum stíl, voru ekkert að rembast við að reyna að ná Ozzy eða einhverju Sabbath soundi, heldur tóku bara alminnilegan metal á þetta. Hápunktur kvöldsins að mínu mati. Þegar Sólstafir voru búnir tók hljómsveit við sem mér skilst að heiti Poison Ivy. Þeir voru allt í lagi, en ekkert meira en það. Söngvarinn réð engan veginn við taka Ozzy (enda ekki fyrir hvern sem er að stíga í hans spor). Eftir um það bil hálftíma pásu, stigu svo Brain Police á svið. Þeir voru helvíti þéttir. Bassaleikarinn jafn góður og hann er feitur, trommarinn alveg solid og söngvarinn (sem lítur alveg eins út og Jack Black) var helvíti fínn líka. Eini sem ég hef út á þá að setja var hvað þeir höfðu hátt stillt í græjunum. Þetta kennir manni að hafa með sér heyrnatappa á svona tónleika.

Djöfull var ég samt að fíla það sem Sólstafir voru að gera. Þeir voru kanski ekki bestu spilararnir í gærkvöldi, en tónlistin þeirra höfðaði samt lang mest til mín. Verð að vera duglegri við að fara á metal tónleika. Ég kemst alveg í vímu þegar ég heyri góðan metal. Nennir ekki einhver að flytja inn Meshuggah svo ég geti skellt mér á tónleika með þeim?

Í kvöld eru svo pítsur eftir karate æfingu, og þaðan fer ég beint á fund hjá Esperanto sambandinu. Verð þá víst að láta mér nægja kók með pítsunum í kvöld. Það verður gaman að sjá hvort maður skilur eitthvað sem fram fer á fundinum í kvöld.

miðvikudagur, nóvember 05, 2003

Það er ekki áfangastaðurinn sem skiptir máli, heldur ferðin að honum. Einhverra hluta vegna starir maður alltaf á áfangastaðinn og gleymir ferðinni. Svo þegar áfangastaðnum er náð, þá sér maður eftir því að hafa ekki notið ferðarinnar og gert ýmislegt sem maður hefði getað ef maður hefði ekki einblínt svona á hann. Kanski er þetta vegna þess að ef maður hugsaði ekki nógu mikið um áfangastaðinn þá missti maður sjónar á honum og vantaði hvatningu til að finna hann aftur, og þannig kæmi maður engu í verk. Ætli það sé ekki eins í þessu og svo mörgu að það er hinn gullni meðalvegur sem er bestur. Að njóta ferðarinnar hæfilega án þess þó að missa sjónar á áfnagastaðnum.

Ég stend á gatnamótum. Ég sé tvö ferðalög. Annað þeirra stefnir að fjárhagslegum styrk og velmegun á okkar þjóðfélagsstandar, laus við skuldir eftir um það bil 20 ár. Hitt stefnir að meiri menntun og nýjum starfsvetvangi ásamt meðfylgjandi skulda söfnun. Ég á miklu erfiðara með að lesa framtíðina í þessum seinni kost. Alltof margar breitur til að maður geti verið viss. En eitt sé ég þó vel, og það er að ég mun njóta seinna ferðalagsins miklu betur en þess fyrra. Ég hef ákveðið að sækja um launa laust leyfi í vinnunni og fara í skóla eftir áramótin (takk fyrir hvatninguna Freysi og Brynja).

Jeij, SAABinn er kominn í gang og á götuna :) nú er bara að vona að hann leki ekki alveg jafn mikilli olíu.

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

C8H10N4O2
Djöfull var ég þreyttur í gær. Ég var alveg búinn á því. Eyddi öllu gærkvöldinu í að reyna að koma bílnum aftur í gang. Ég hafði áætlað að það tæki svona klukkutíma, þetta átti ekki að vera neitt mál. Ég var því orðinn ógeðslega fúll og pirraður klukkan ellefu í gærkvöldi þegar ég varð að skilja bílinn eftir og fara heim að sofa. Búinn að eyða sex klukkutímum í þetta og bíllinn ekki enn kominn í gang. Annars segir færslan hérna á undan allt um það hvernig mér leið. Vandamálið er að það fer enginn straumur á bensíndæluna. Ég veit að vísu ekki afhverju það gerist, en það er alltaf ágætis byrjun að finna vandamálið. Sjáum svo til hvort þetta blasi ekki bara við mér þegar ég kem í skúrinn eftir vinnu.

Ég held ég sé líka búinn að fynna ástæðuna fyrir því afhverju ég á svona erfit með að taka ákvörðun í þessu skóla máli. Það er ekki peningahliðin sem er að trufla mig eins og ég hef haldið hingað til. Ég er hræddastur við að ég eigi ekki eftir að ráða við námið, eða í það minnsta gefast upp á því. Svona eins og þegar ég byrjaði í eðlisfræðinni og tölvunarfræðinni. Jæja, við sjáum hvað setur.

Svona í lokin þá er hérna smá komment frá howstuffworks um koffein: "Caffeine is an addictive drug. Among its many actions, it operates using the same mechanisms that amphetamines, cocaine and heroin use to stimulate the brain. On a spectrum, caffeine's effects are more mild than amphetamines, cocaine and heroin, but it is manipulating the same channels, and that is one of the things that gives caffeine its addictive qualities." Ég hefði svo sem getað sagt ykkur þetta, en það er ágætt að hafa þetta skjalfest. Farinn í kaffi.

*throw's in the towel*

laugardagur, nóvember 01, 2003

Djöfull er ég lélegur í að taka ákvarðanir. Ég er að reyna að ákveða hvort ég eigi að hætta að vinna og fara í vélaverkfræði ... og ég get það ekki :(

This page is powered by Blogger. Isn't yours?