<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, febrúar 27, 2004

Þá er komið að því að maður fari að gera eitthvað í SAAB og MegaSquirt málum. Ég er forvitinn mjög og hef gaman af því að prófa eitthvað óvenjulegt. Ég ætla því ekki að fara þá hefðbundnu leið með SAABinn sem búst mætti við (fá MegaSquirtið til að virka og skrúfa svo bústið upp úr öllu valdi), heldur ætla ég að hækka þjöppuna á vélinni með því að setja stimplana úr gömlu átta ventla vélinni minni í hann. Þannig ætti ég að ná þjöppunni upp í 10,1:1 (reyndar kanski eitthvað örlítið hærra því heddið var planað í fyrra). Ég hef nefnilega ekkert að gera við að gera SAABinn jafn kraftmikinn og SAABinn hans Nóna, enda er ekki ætlunun að fara með hann í kvartmíluna (aldrei að vita nema maður mæti samt einhverntíman með SAAB þangað, en allt bíður síns tíma). Með þessu ætti ég að geta gert SAABinn mjög skemmtilegan götubíl.

Ég fæ legur og fleira sem ég var að panta í dag og helgin verður svo notuð í að rífa sundur 8 ventla vélina og kanna ástandið á stimplum, sveifarás og blokk. Ef allt er í góðu lagi verður svo bara drifð í að koma þessu í SAABinn og tengja MegaSquirtið. Mig vantar að vísu ennþá TPS (throttle position sensor), lofthita (IAT) og súrefnis skynjarana, en það getur ekki verið svo mikið mál að finna þá á partasölum landsins. Hvernig TPS skynjara notaðir þú Baldur?

Hef þetta ekki lengra í bili, er að fara á fund hjá Auxroro í kvöld og þar að æfa mig aðeins í Esperanto fyrst (svo maður skilji nú eitthvað.
Gxis la.

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Hr. Svavar,
þakka þér fyrir gott og gagnlegt komment hér að neðan. Þetta er hárrétt hjá þér. Maður á ekki að sætta sig við starf sem manni líkar ekki. Sérstaklega ekki ef það gagnast í raun sára fáum, og munar þessa sára fáu í raun sára litlu (það er ekkert svo áberandi að ég hef verið að stúdera Búddisma undanfarið, er það?).
Þetta eru líka góðar uppástungur sem þú kemur með. Að breyta bensín sprengihreyflum í vetnis eða methan gas hreyfla. Eitthvað sem ég hef haft mikinn áhuga á undanfarin misseri (er meira að segja með sér möppu undir vinnumöppunni minn í tölvunni fyrir vetni og vetnisrannsónknir). Kanski maður hafi verið of litaður af þeim fordómum sem vissulega fyrirfinnast meðal þeirra sem ekki eru verkmenntaðir gagnvart þeim sem eru það (svipaðir og fordómar þeirra sem eru verkmenntaðir gagnvart okkur hinum), og hafi einblínt of á fræðilegt nám. Það þurfa ekkert allir að vera í grunnrannsóknum. Einhverjir verða að vinna úr þeim og koma þeim í praktík. Hvað segiru Nóni...eigum við að smíða vetnis og/eða Methan SAAB? Eða eru Íslendingar alltof snobbaðir fyrir gamla bíla (nema þeir séu ofur uppgerðir gamlir amerískir "kaggar") sem búið er að breyta í vetnis/methan bíla? Eða bara gamla bíla yfri höfðu, sama hverju þeir brenna. Vilja þeir ekki bara nýja bíla með öllum aukahlutum og nýjustu tækni í hreyfilhönnun? Og eru það ekki verkfræðingar sem hanna svoleiðis? Er það kanski ekki bara dauðadómur (svona practískt og peningalega séð) að hella sér í eitthvað svoleiðis án þess að vera menntaður í því (það er að segja með stimpil í því frá einhverjum skóla, því maður breytir auðvitað ekki neinni vél til að fara að brenna öðru eldsneyti en hún er upprunalega hönnuð fyrir án þess að vita hvað maður er að gera). Er ég ekki bara kominn í hring hérna og ætti að halda mig við verkfæðina? Maður ætti kanski bara að fara að leggja eitthvað á sig í þessu námi og læra heima? Ég hef nottla ekki skilað heimadæmum í fleiri vikur þannig að þessi önn er svo sem fallin um sjálfa sig... ekki nema að ég er búinn með verklegu eðlisfræðina eða svo gott sem (á bara eftir að skila einni vinnubók og svo einni skýrslu í kjölfarið). Ef ég man rétt gildir það alveg í eitt ár, þannig að ef ég héldi áfram í HÍ þá væri ég laus við verklega þáttinn í eðlisfræði 2V næstu vorönn (og það er enginn lítill vinnusparnaður).

Svo er nottla möguleikinn á að taka þátt í einhverjum af þessum NATO verkefnum sem Flugmálastjórn verið að taka þátt í (og er að fara að taka þátt í) í Kosovo og Metohiju og Afghanistan. Ég er bara svo mikil gunga þegar kemur að því að taka einhverjar svona ákvarðanir. Svo hef ég pínu áhyggjur af því að ef ég byrji á einhverju svona, þá eigi ég ekkert eftir að koma aftur heim. Ekki fyrr en kanski eftir mörg ár. Eigi alveg eftir að hella mér í verkfnið og stökkva svo strax á næst tækifæri þegar og ef það gefur færi á sér. Ekki það að það er kanski ekkert slæmt við það. Taka þetta bara í röð: Kosovo, Afghanistan, Iraq og hvað svo sem kann að koma þar á eftir... Israel/Palestina (Písrael) kanski. Maður veit nottla aldrei hvað maður lærir á svoleiðis reynslu. Ómögulegt að segja til um það fyrirfram.

Svo gæti ég líka tileinkað líf mitt Karate. Selt íbúðina og SAABinn og flutt til Naha og gerst nemandi Higaonna Sensei. Hmm... kanski soldið óraunhæft. Ekki það að ég lít alveg á það sem raunhæfan möguleika að gerast karateka og tileinka Goju Ryu allan minn frítíma.

En kanski er þetta líka bara rétt hjá þér Birkir, að þetta sé bara einhver síðvetrar þunglyndi í mér eins og venjulega að trufla dómgreindina og brjóstast fram í einhverju krumpi og aumingjaskap. Ég er þó allavegana ekki jafn langt leiddur og þessir! Ég verð nú bara að quota Tyler Durden: "Is that what a real man looks like?" Muhahahahaha.

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Að missa af lestinni

Nú þegar þriðja tilraun mín til að hefja nám við Háskóla Íslands, og fjórða tilraunin við nám frá því að ég kláraði MH, er farin út um þúfur, get ég ekki gert að því að ég er í hálfgerðri tilvistarkreppu. Mér finnst eins og ég sé að missa af lestinni. Það eru einhvern veginn allir í kringum mig komnir mun lengra á lífsleiðinni en ég. Ég sit einn eftir og veit ekkert hvað ég á að gera. Tino og Silja halda upp á hálfsárs afmæli litla Tino eftir nokkra daga og flytja svo til Malmø (í SAAB landinu góða :)) í haust. Mosi er að ljúka masters námi í sálfræði við Cranefield háskóla eftir nokkra mánuði. Freysi er í doktorsnámi í gervigreind í Bandaríkjunum. Johnny og Bára eru að fara að gifta sig í júní og svo eru þau að fara í masters nám í sálfræði í Bandaríkjunum í haust. Helgi Hrafn litli bróðir er að klára Austuríska útgáfu af mastergráðu (sem heitir einhverju voða fínu austurísku nafni) í tónlist í sumar. Svo er hann að spila á fullu með hljómsveitinni sinni, og svo er hann líka að semja og taka upp sína fyrstu sóló plötu. Á meðan sit ég heima og veit hvorki hvað mig langar að læra, og því síður hvað mig langar til að starfa við í framtíðinni.

Ég er nottla fastráðinn hjá Flugmálastjórn og get því bara farið aftur að vinna, en málið er bara að mér hundleiðist vinnan sem ég er að gera þar. Á hinn bóginn hef ég mjög gaman af áhugmálunum mínum, og gæti því gert eins og við Freysi vorum að tala um um daginn. Af læra að sætta sig við vinnuna og lifa bara fyrir áhugamálin. Það er ein leiðin. Mér finnst hún samt ekkert sérstaklega heillandi. Það er eins og mig vanti eitthvað. Eitthvað að gera eða áorka. Ég veit ekki hvað það er, en mér finnst eins og ég mun annaðhvort fara yfirum á endanum ef ég fullnægi ekki þessari vöntun, eða svona smá saman deyja innan í mér og verða á endanum dauðyfli í vinnubása helvíti. Bitur gamall púki sem situr einn úti í horni í mötuneytinu í hádeginu og stendur annars ekki upp frá tölvunni. Týpan sem stimplar sig alltaf inn og út á slaginu. Ég vil hvorugt.

Ég held ekki að málið sé að ég geti ekki lært. Ég held ég geti það alveg. Mig bara vantar hvatningu. Ekki eitthvað "Go Tiny!" frá vinum mínum (þó það sé alltaf gaman að fá svoleiðis líka",) heldur hvatningu frá sjálfum mér. Þegar ég er að lesa eða stúdera eitthvað sem tengist áhugamálum mínum get ég alveg gleymt mér tímunum saman í djúpum pælingum. Sökkt mér í hönnun eldsneytis- og kveikjukerfa fyrir sprengihreylfa, eða þróun sólstjarna. En svo þegar kemur að stærðfræði- eða eðlisfræðidæmum þá bara get ég ekki fengið mig til að stija við nema í nokkrar mínótur í senn. Kanski er þetta bara úrelta kennslufyrirkomulagið í HÍ. Kanski hef ég bara ekki hæfileikana sem þarf til að klára háskólanám. Mér finnst þetta seinna reyndar ekkert ólíklegt. Þó svo áhugan á því að starfa sem verkfræðingur vanti ekki þá er þetta erfitt nám og ekkert gefið að hver sem er ráði við það.

Hvað segið þið? Hafið þið einhver heilræði í handraðanum fyrir tæplega þrítugan mann í tilvistarkreppu, sem líður eins og hann sé að verða sjötugur?

föstudagur, febrúar 20, 2004

Jæja, ég er ekki búinn að vera duglegur að blogga síðustu daga. Best að bæta úr því.

Það kviknaði í bílnum hans Johnny um daginn. Bára var að rúnta á honum þegar það byrjaði að rjúka ógurlega undan húddinu, hún reyndi að sjálfsögðu að drepa strax á honum, en hann gekk samt áfram í ca. 2 mínútur eftir að hún tók lykilinn úr. Ég hef svo eitt nokkrum kvöldum með Johnny í að reyna að komast að því hvað það var sem brann, en það hefur reynst hægara sagt en gert. Það er svo sem alveg nógu ógeðsleg brunafíla af öllu undir húddinu á honum, en það er líka einu merki þess að eitthvað hafi brunnið. Engin sjáanleg merki eftir bruna, neinsstaðar. Fyrsta kvöldið skoðuðum við alla víra sem við fundum í von um að finna eitthvað sviðið eða með trosnaðri einangrun, en allt kom fyrir ekki. Við ákáðum því að taka smá áhættu og prófa að starta honum. Það þíddi lítið. Startarinn skaut start kransinum fram, en svo ekkert meir. Okkur grunaði því strax að þetta hefði eitthvað með hann að gera. Okkar næsta verk var því að rífa hann úr. Eftir dúk og disk tókst okkur svo loks að ná honum úr. Þvílíkt vesen. Maður er farinn að skilja þetta óorð sem fer af frönskum bílum. Við vorum einhverja 2-3 tíma bara að ná helvítinu úr! Ekkert virtist athugavert við hann eða tengingarnar að honum. Við tókum því alternatorinn næst úr, en það var sama sagan, allt virtist vera í fínu lagi. En þegar hér var komið sögu var okkur farið að finnast þetta meira en lítið skrítið. Svaka brunafíla en ekkert brunnið! Ég ákvað því að taka með mér startaran og alternatorinn og láta mæla hvort tveggja fyrir mig. Ég fór svo með draslið til Sævars á Kirkjubrautinni, en hann sérhæfir sig í bíla og bátarafmagni og er með þennan líka forláta alternator og startara prófunarbekk hjá sér. Fyrst var það alternatorinn, allt í lagi með hann. Næst startarinn; klik, klikk klikk, reykur... Sökudólgurinn var fundinn. Startarinn hefur sem sagt brunnið, og það ansi hressilega en þó þannig að snyrtimennskan sé í fyrirrúmi, því það sást ekkert utan á honum. Samkvæmt því sem Sævar segir, þá hefur sennilega leitt saman í vírunum að startaranum þegar bílinn hefur verið í gangi, þannig að startarinn hefur farið að reyna að starta. En þar sem vélin var í gangi þá hefur hún snúið honum upp á miklu hærri snúning en hann er gerður fyrir og hann því brunnið.

Næsta mál er því að reyna að finna nýjan startara... sem er EKKI í bíl... nenni sko ekki að fara að standa úti í Vökuporti í marga klukkutíma að reyna að rífa startaran úr. Vitið þið bílakallar ekki um einhvern Renault partasala?

Hey dularfullt, lyklabor[i[ mitt er allt 'i einu h;tt a[ skrifa 'islenska stafi!

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Hálf sjö... ætli ég eigi einhverntíman eftir að koma sólarhringnum aftur í eðlilegt horf?

Bætti við þrem linkum þarna hægrameginn, en þeir eru allir mjög bitrir og því skemmtilegir.

mánudagur, febrúar 16, 2004

"Only two things are infinite, the universe and human stupidity, and I'm not sure about the former."
- Albert Einstein (1879-1955)

"Many people would die rather than think; in fact, most do."
- Bertrand Russell (1872-1970)

Ég er búinn að vera í eitthvað svo melankólískum fíling síðustu daga. Það tók svo alveg botninn úr þegar ég horfði á Mótmælanda Íslands áðan. Helgi Hóseasson hefur reynt að fá skírnar og fermingarsáttmála sinn ógildan í áratugi, auk þess að mótmæla stuðningi ríkisstjórnarinnar við innrásarstríð Bandaríkjanna í Írak. Og hverju hefur honum orðið ágengt eftir áratuga mótmælastöðu, skyr og tjöruslettingar? Engu. Ekkert er breytt. Kirkjan neitar að ógilda samninginn við himnadrauginn, og Dóri stendur jafn fast við það að innrásin í Írak hafi verð réttmæt. Helgi hefur með öðrum orðum, kastað lífi sínu á glæ.

Það má skipta æfinni upp í þrjú skeið. Fyrsta hluta æfinnar eyðir maður í að mennta sig. Svo maður fái góða vinnu (ekki er verið að undirbúa mann fyrir neitt annað, svo mikið er víst). Svo sleppur loks úr skólakerfinu, grár og myglaður, og fær vinnu við eitthvað sem á engan hátt tengist því sem maður var að læra. Þessi skipti á milli fyrsta og annarshluta eru ekkert endilega svona skýr. Ég er til dæmis búinn að vera á öðrum hluta æfi minnar að mestu leiti síðan '99. Á að vísu að heita að ég sé í skóla núna, en ég sé ekki fram á að ég sé að fara að gera neitt af viti í þessu námi sem ég er í, verð kominn aftur í vinnuna í vor og sjálfsagt aldrei eftir að sleppa þaðan út. Hvernig eyðir maður svo þessu öðru (og sennilega lengsta) skeiði æfinnar? Jú maður eyðir því í að sofa, vinna, skíta og í móki fyrir framan imbakassan. Svo þegar maður er orðinn svo gamall að maður afkastar ekki nógu miklu í vinnunni, þá er maður rekinn (er auðvitað ekki rekinn per se, heldur fer maður á eftirlaun, en það ku vera mun virðulegara en að vera rekinn). Þá hefst þriðja og síðasta skeiðið. Dauða skeiðið. Því eyðir maður í að missa smá saman kraft og vit og svo deyr maður loks án þess að hafa áorkað neinu. Jæja, maður eyddi þó allavegana ekki tíma í tilgangs- og áhrifalaus mótmæli. Svo, einni viku eftir að búið er að skipta arfinum (þ.e. skuldunum manns) niður á ættingjana, er búið að gleyma manni. Æj, þetta er allt ein samhangandi andstyggð.

sunnudagur, febrúar 15, 2004


I am the number
666
I am evil

_

what number are you?

this quiz by orsa'nuff said

Jæja, þá er ég búinn með MegaSquirtið og allt tilheyrandi. Ég skellti nokkrum myndum af dótinu inn á heimsvæðið mitt hjá HÍ. Þið smellið bara á fyrstu myndina, og notið síðan fastforvard píluna í Operu til að hoppa yfir í næstu mynd. Ef þið notið Internet Explorer þá hefnist ykkur nú fyrir það og þið verðið að ýta á back á milli allra myndanna og velja svo þá næstu. Á myndinn hér að neðan sjáið þið MegaSquirt tölvuna sjálfa vinstrameginn fyrir miðju (stendur í opnum álkassa), Stimulatorinn er svo tengdur hægrameginn í MegaSquirtið og þar við hliðina á (en ekki tengt í neitt) er relay platan. Fyrir ofan MegaSquirtið er svo MegaView skjárinn (tengdur við MegaSquirtið með db9 snúrunni). Tékkið líka á heimasmíðaða 9 volta batteríinu mínu ;)


föstudagur, febrúar 13, 2004

Ég verð nú að segja að Hróarskeldu hátíðin er alltaf að verða meira og meira spennandi. Fyrst Bowie, svo Pixies og nú var ég að sjá að ofur metal bandið Meshuggah spila í ár (Korn teljast ekki með af því að þeir eru að koma hingað í vor).

Mér er alveg sama þó þið tékkið ekkert á þessum lögum sem ég er að uploada fyrir ykkur. Ég ætla samt að halda því áfram. Lag dagsins er Fortress Europe með Asian Dub Foundation, en þetta var það band sem kom mér hvað mest á óvart á hátíðinni í fyrra. Þeir spila tónlist sem ég hef aldrei hlustað neitt sérstaklega á, en af því að Elli fyrrverandi nágranni minn og Brids félagi sagði að ég mætti alls ekki missa af þeim þá skelltum við Doddi okkur á tónleikana (enda engir aðrir spennandi tónleikar í gangi klukkan 2 um daginn), og verð ég bara að segja að þetta var mikil snilld. Bandið náði upp rosa stemningu, mikið dansað og mikil gleði.

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Búinn með Stimulatorinn. Þetta tókst bara helvíti vel hjá mér, en ég hefði aldrei geta gert þetta nema fyrir það að Nóni lánaði mér lóðboltann sinn. Þvílíkur munur á honum og klunnalega lóðboltanum mínum. Mig vantar að vísu ennþá eitt viðnám, en ég redda því í íhlutum á morgun. Ætla líka að fá digital myndavélina hans pabba lánaða og taka nokkrar myndir til að monta mig :-D

sunnudagur, febrúar 08, 2004

Flottar auglýsingar þetta: Bush in 30 seconds

Freysi benti mér á þetta. Endilega tékkið á þessu ef þið eruð með sæmilega nettengingu.

Skólinn gengur annars svona la la hjá mér. Er ekki búinn að vera alveg nógu duglegur, en þetta er samt að smá lagast hjá mér. Hef verið að smá auka tímann sem ég hef gefið mér í heimalærdóm. Er allavegana harð ákveðinn í því að klára þessa önn. Hvað svo sem verður með framhaldið.

Var svo að sjá á mbl.is að það er loksins búið að taka ákvörðun í þessu Afganistan máli. Er að spá í að sækja um. Eða réttara sagt er nokkðu viss um að ég ætla að sækja um. Þetta verða sennilega svona 3 mánaða tarnir eins og í Kosovo, þ.e.a.s. að maður skuldbindi sig til að vera í þrjá mánuði í einu og geti svo komið heim. Það passar mér helvíti vel. Taka bara sumarfríið í þetta. Yrði að vísu bara á sömu launum og hér heima, en við bætast síðan dagpeningarnir, og svo yrði þetta nottla heljarinnar æfintýri og mikil lífsreynsla. Það sem mér líst einna verst á er sú staðreynda að það verða kosningar í landinum um sumarið, og einhverra hluta vegna virðast alltaf verða einhverjar óeirðir, manndráp og vesen í kringum svoleiðis í þessum "órólegri " löndum... og þar sem það er nú hálfgert stríðsástand ríkjandi í Afgansitan nú þegar, þá má kanski búast við hverju sem er. En flugvöllurinn og íbúðarsvæði hermannanna (væntanlega þar sem íslendingarnir munu búa) er víst vel afgirt þannig að maður ætti að vera sæmilega öruggur. Ég ætla allavegana að tékka á þessu á mánudaginn.

Ég læt ykkur vita um leið og ég veit meira. En ef ég þekki þessa stofnun rétt (og ég held ég geri það) þá fær maður engin alminnileg svör fyrr en maður er kominn um borð í flugvélina á leiðinni út.

Skellti mér annars á Lost in Translation í kvöld með Johnny. Þetta er bara alveg frábær mynd. Ég verð nú bara að segja að ef restin af bíóárinu verður eitthvað í líkingu við þessar þrjár myndir sem ég er búinn að sjá nú þegar (lost in translation, lord of the rings: the return of the king (aftur, Stefán bróðir fékk frímiða í vinnunni sinni), og big fish) þá er von á góðu. Þetta eru allt algjörar snilldar myndir. Big Fish og Lost in Translation hafa báðar komið mér skemmtilega á óvart. Sofia Coppola nýtur góðs af fjölskyldu nafnu, því ég hef það sterklega á tilfinningunni að ef hún væri ekki dóttir pabba síns (Francis Ford Coppola - leikstjóri Godfather þríleiksins; fyrir ykkur sem eruð kvikmyndalega heft ;o) þá hefði Virgin Suicides aldrei komist út fyrir kvikmyndahátíðir og þessi mynd sennilega ekki verði gerð (í það minnsta ekki með Bill Murray (sem er nottla einn besti kvikmyndaleikari samtímans), og þá sennilega aldrei farið í almennar sýningar heldur. Sofia virðist ætla að verða fyrirtakst character leikstjóri og er það vel. Veitir ekkert af nokkrum slíkum í Hollywood. Ég verð að viðurkenna að eftir að hafa horft á bæði Lost in Translation og Virgin Suicides, hef ég verði hálf skotinn í aðal kven persónunum (báðar snildarlega leiknar, annars vegar af Scarlett Johansson (lit) og hins vegar af Kirsten Dunst (vs).

Jæja, uss, ég er farinn að hljóma eins og graður fermingastrákur. [note to self: aldrei að blogga þegar maður er bæði búinn með bjór og viskí]. Klukkan orðin hálf sex og ég sem á eftir að klára tvenn heimadæmi á morgun plús að eyða fullt af tíma í MegaSquirtið og reyna að plata Nóna til að gefa mér kaffi og lána mér lóðbolta. En svona rétt í lokin þá er hérna lag dagsins: Rabbit in Your Headlights með UNCLE og Thom York. Lagið er 5,8 MB að stærð. Og svona fyrst ég er að þessu, dowloadið þið þessum lögum, eða ætti ég ekkert að vera að þessu? Þetta eru nú einusinni höfundarréttar brot... þó svo ég setji bara eitt lag af hverjum disk og þið eigið auðvitað að drífa ykkur og kaupa viðkomandi disk ef þið fílið lagið :-D. Endilega commentið á þetta ef þið tékkið á einhverjum af þessum lögum, annars ætla ég ekkert að vera að þessu. Jæja, góðar stundir.

laugardagur, febrúar 07, 2004

Brjálaður SAAB 9-3. 7,5 MB video.

Jæja, restin af MegaSquirtinu er sem sagt komin til landsins. Ég sótti það upp á tollpóst rétt eftir lokun í gær, en konan í afgreiðslunni var svo elskuleg að tollafgreiða þetta bara fyrir mig á láta mig fá pakkan (allt pakkið frá tollinum var farið heim). Ég þurfti að borga ca. 2500 kr. í vask, en þetta er tollfrjálst þannig að ég þurfti ekki að borga neinn toll.

Núna ætla ég að byrja að lóða þetta saman. Ég ætla að sjá til hvernig mér gengur með auðveldustu partana og ákveða svo hvort ég treysti mér í þá erfiðari (og viðkvæmari). Getur alveg verið að ég fái einhvern mér reyndari til að klára þetta fyrir mig. Við sjáum til. Ég ætla líka að reyna að fá digital myndavél lánað svo ég geti tekið einhverjar myndir af herlegheitunum og sýnt ykkur.

föstudagur, febrúar 06, 2004

MEGASQUIRT!

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Svo er kominn nýr versti brandari sem ég hef hlegið af. Hef heyrt einn verri brandara, en hann var viðurstyggð og ég hló ekki að honum og ætla því ekki að birta hann hér. Þessi allavegana hefur tekið forustuna af þeim bröndurum sem ég hef hlegið af.

Q: what do you get if you put a baby in a microwave?
A: an erection.

Þennan brandara og fleiri slíka er að finna hér.

Jæja, það er bara farið að hóta manni til að maður bloggi meira. Ég bara tók svo góða rispu um daginn að mér fannst ég eiga smá pásu skilið.

Þrátt fyrir blogg leysið er ég búinn að vera duglegur í alvöru lífinu... þessu fyrir utan internetið. Frá því að ég át of pipraða pastað um daginn er ég búinn að fara á sinfóníutónleika, í bíó, tvisvar út í stjörnukíki, í fimmtugsafmæli, klára eina eðlisfræðivinnubók og fokka svefnhringnum mínum algjörlega upp aftur. Núna held ég að ekkert dugi nema sjálfsmorðs- ég meina svefnpillur.

Tino hringdi í mig á þriðjudagskvöldið. Hann var þá út í 10 11 að versla og eins og allir vita þá er það hund leiðinlegt og því hringdi hann í mig til að spjalla og gera verslunarferðina aðeins bærilegri. Eins og gengur með okkur Tino, þá spjölluðum við heil lengi og ég hef örugglega bætt heilmiklu við heilaæxlið (er sko með heilaæxli sem nærist á örbylgjunum úr gemsanum mínum). Á meðal þess sem okkur bar á góma, voru sinfóníutónleikarnir á fimmtudaginn, en þá var verið að spila 4. sinfóníu Shostakovitch. Nú og þar sem ég hef verið algjör sluxi í að mæta á sinfóníutónleika síðan ég hætti að kaupa áskrift að þeim, þá ákvað ég að nú væri tími til kominn að ég skellti mér á tónleika. Shostakovitch er líka svo mikill snillingur að þessir tónleikar gætu ekki annað en verið góðir. Ég keypti því miða á fimmtudeginum á námsmannaafslætti (50% afsláttur ef keypt er á tónleikadegi). Fékk sæti á 24 bekk, sem er auðvitað alveg óviðunnandi í Háskólabíó. Sat þar fyrir hlé, en skellti mér svo fram á 11. bekk eftir hlé (hafði séð nokkur laus sæti þar fyrir hlé). Fyrir hlé var spilaður fiðlukonstert í D dúr op. 61 eftir Beethoven. Einleikari var Pekka Kuusisto, sem er hálfgert undrabarn á fiðluna. Vann Sibelius fiðlukeppnina þegar hann var 19 ára, og það leika það víst ekki allir eftir. Ég get lítið sagt til um hvernig honum tókst til, annað en það að hann spilaði allt of veikt fyrir þennan sal. Það heyrðist varla í honum þarna aftur í rassgati. Annars er fiðlukonstert eftir Beethoven ekkert sem er að fara að hrífa mig neitt rosalega. Eftir hléið, þegar ég var kominn í betra sæti var svo komið að aðal verki kvöldsins, og ástæðunni fyrir því að ég fór á tónleikana á annað borð. Ég var ekki svikinn. 4. sinfónían er mjög kraftmikil, og minnti mig á köflum (sérstaklega í byrjuninni) á 7. sinfóníuna (Leningrad sinfóníuna). Mjög skemmtilegt.

Á föstudaginn fór ég í fimmtugsafmæli hjá Bjarna fyrrverandi nágranna. Það var mjög fínt. Var reyndar edrú, en það var kanski bara fyrir bestu. Fínar snittur og ágætar ræður og skemmtiatriði. Var reyndar ekki alveg sáttur við hvað menn voru mikið að dissa hann fyrir síða hárið sem hann var með (fyrir ca. 30 árum síðan). Ef eitthvað er að marka þessar gömlu myndir (það er þó allavegana ekkert búið að photoshoppa þær) þá var alveg eins hár og Robert Plant, og hvernig getur það verið eitthvað annað en cool?

Á laugardaginn fór ég svo með Ósk og félaga út í stjörnukíki. Ég hafði að vísu ekki farið í stjörnuskoðun síðan einhverntíman í haust, þannig að ég var soldið ryðgaður í þessu, en ég held samt að það hafi ekkert komið að sök. Þau sögðust allavegana hafa haft gaman af þessu (þrátt fyrir 10 stiga frost og kalskemmdar tær) og þökkuðu voða fínt fyrir sig.

Á sunnudags kvöldið fór ég og ætlaði að vera voða sniðugur og reyna að finna út úr því af hverju mótorarnir og tölvurnar á sjónaukanum fá engan straum, en þegar á staðin var komið kom í ljós að það er hægara sagt en gert að komast að tengjunum. Þarf að skrúfa lappirnar af sjónaukanum öðru megin, og það er vesen. Þá þarf líka að stilla hann aftur þegar maður er búinn og ég var ekkert með græjur í svoleiðis. Birkir var með mér þarna, og við fórum bara að skoða Satúrnus í staðinn. Stuttu síðar komu svo Hörður Mar, Eydís Ýr kærastan hans Harðar, og einhver bekkjafélagi hennar úr stjörnufræði í MS sem ég man því miður ekki hvað heitir. Stuttu á eftir þeim mætti svo stjörnufræðikennarinn sjálfur, Sævar Helgi. Þar sem ég hafði ekkert planað að vera í stjörnuskoðun þarna um kvöldið líka, var ég illa klæddur, og við Birkir létum okkur því hverfa, og skelltum okkur á Big Fish. Ég var pínu skeptískur eftir Planet of the Apes endurgerðina. En ég er ekki frá því að Big Fish sé bara besta myndin hans til þessa. Stórskemmtilega alveg. Mæli með henni.

Ég ætla ekkert að vera að segja ykkur frá eðlisfræðivinnubókinn. Sendi Freysa hana kanski til að hefna mín fyrir hótunina...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?