<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Þá er ég búinn með síðustu vaktina. Nú tekur við 8-4 vinna eins og hjá öllum hinum samfélagsþrælunum. Það verður ágætis tilbreyting. Á mánudaginn byrja ég svo aftur í Karate og allt virðist bara vera að færast í sitt gamla horf. En það er þó ekki það sem ég ætla að blogga um. Nei nú er kominn tími á SAAB fréttir!

Í SAAB fréttum er þetta helst. Birkir kom aftur í siðmenninguna um helgina og nýttum við því mánudaginn í að taka vélina og gírkassan úr parta SAABinum. Gekk það að öllu leiti vel fyrir sig. Á þriðjudaginn heltist yfir mig einhver mara og var ég vart nema amlóði þann daginn. Varð því lítið úr verki og tók ég ekkert úr paratSAAB nema framljósin annað stefnuljósið (náði ekki hinu sökum ryðgaðra og leiðinlegra skrúfa, en reyni aftur á morgun eftir að hafa baðað allt í WD-40), auk rammans sem allt situr í. Er það ætlun mín að laga ryðskellurnar sem eru komnar á hann og sprauta eða duft húða og nota í 99una. Var svo að vinna í gær og í dag. Gerði lítið nema slæpast í gærkvöldi, en fór til Birkis í kvöld og í sameiningu tókum við topplúguna og headlinerinn (loft/topp-klæðninguna?) úr SAABinum hans. Öllum viðstöddum (s.s. mér og Birki) gladdist mjög að sjá að ekkert ryð var að finna þar undir. Eftir þetta var farinn kók (ekki fyrir mig samt, er ennþá alveg skrauf þurr hvað koffín snertir) og tjúningarúntur. Eins og dyggir lesendur vita (ef ég hef þá á annað borð skrifað um það, ég man það ekkert og nenni ekki að tékka á því) þá breytti ég APCinu mínu um daginn. Skipti út tveimur viðnámum nánar til tekið. Átti ég alltaf eftir að stilla P og F breytiviðnámin eftir þessa breytingu. Afleiðngin var sú að vélin bústaði alltaf upp í rétt um 1 bar en datt svo niður í tæplega 0.7 bör. Tókum við nokkur rönn út á granda og fiktuðum okkur áfram þangað til við vorum farnir að fá stöðugt búst. Vorum við búnir að ná því stöðugu og góðu eins langt og ég vildi snúa vélinni (rétt um eða yfir 6000 snúninga á mínútu). Ekki vanst okkur þó tími til að tjúna það hærra en í 0,7 bör, en við erum búnir að ná góðum tökum á því og því þarf ekki nema nokkur rönn til að fá hann til að halda einu bari eins og ég vil að hann geri (til að byrja með allavegana, eða þangað til ég verð búinn að skipta alfarið yfir í MegaSquirtið og kaupa mér stærri spíssa). Á morgun fer ég að rífa kúplinguna úr keppnisSAABinum hans Nóna, en hún dugir honum víst ekki lengur. Hún ætti samt að duga fyrir töluvert meira afl heldur en túrbínan ræður við að framleiða og gírkassinn þolir.

Í fyrramálið ætla ég líka að hjálpa Einari frænda að laga ryðbletti á Sunnyinum hans (sem ég seldi honum hér um árið). Hann ætlar að leigja sandblástursbyssu hjá Byko, og verður spennandi að fá að prófa svoleiðs. Á líka slatta af bremsum sem veitir ekkert af því að verða sandblástnar áður en þær fara undir 99 GL og 900 GLE TURBO ;)

Jæja, læt þetta duga í bili. Ælta að reyna að kíkja eitthvað á kvikmyndahátíðina í Háskólabíó, ekki það að ég hafi neitt efni á því en þar sem ég er víst að fara í Gokart á laugardaginn og kanski líka Paint Ball (hvort tveggja með vinnunni) þá hlít ég að geta splæst á mig einum 800 kalli til.

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Ég var að fatta, mér til mikillar ánægju, að ég er að taka síðustu næturvaktina mína fram á vor. Ekki nema ég auðvitað fái einhverjar aukavaktir. En þær ættu ekki að verða margar. Nú á ég bara eftir að vera á vöktum frá föstudegi til sunnudags, og svo miðvikudag og fimmtudag í næstu viku og þá er ég búinn. Svo tekur við átta til fjögur vinna fram á vor. Það verður fín tilbreyting. Er alveg kominn með nóg af vöktum í bili.

sunnudagur, ágúst 15, 2004

Fór í heimsókn til soðgreifans á Hellissandi um helgina við annan mann. Grétar Dór, sölumaður hjá Ísól og lögfræðinemi, fylgdi mér í sænska stálfáknum vestur á Sandinn. Var ferðin þangað tíðinda laus, nema hvað tengsladiskurinn snuðar sem enginn væri. Við því var þó búist áður lagt var af stað og því ekið í samræmi við það. Á Hellissandi tók á móti okkur sama blíðviðrið og verið hafði alla leiðina, en því til viðbótar tók Soðgreifinn sjálfur, Kristinn Ottason, á móti okkur með rjúkandi heitt pasta og ölkrúsir. Voru glasalyftingar stundaðar fram eftir kvöldi af nokkru kappi og kvöldið endað á næturgöngu um bæinn. Laugardagurinn var tekinn nokkuð snemma og haldið upp á hótel þar sem snæddur var morgunverður. Soðgreifinn tók þá til við að elda hádegisverð fyrir gesti hótelsins, svo við Grétar létum okkur hverfa yfir á Snæfellsás. Þar tóku við lóðalyftingar og armbegjur og réttur og ótalinn fjöldi af magaæfingum. Ég hef nefninlega ákveðið að byrja aftur að æfa karate frá og með september. Það sem eftir lifir ágúst mánaðar verður því notað til að komast í smá form áður en æfingarnar byrja.

Hittum svo Kidda aftur um þrjú leitið og röltum upp í laut með smá skógrækt sem er þarna í bænum (allar vegalengdir á Hellissandi eru innan við 5 mínútna gangur). Lögðumst þar í sólbað og drukkum meiri bjór. Gerðum svo tilraun til að fara að skoða helli þann er kallaður er brugghellir, en er við vorum að verða hálfnaðir á áfangastað brunnu í sundur öryggin sem gefa MegaSquirtinu strauminn, og þar með bensíndælunni líka. Þar sem ég hafði skilið öll öryggin mín eftir í verkfæratöskunni, og verfæratöskuna eftir í bænum þá vorum við strand. Fékk nokkur öryggi hjá ferðalang sem átti leið þarna um, en brenndi þau flest í sundur, og ákvað að geyma þessi tvö síðustu þar til ég væri búinn að fá tækifæri til að kíkja betur á rafkerfið. Kiddi hringdi því á félaga sinn sem mætti á Subaru og dró okkur aftur inn að Snæfellsási. Ég fiktaði soldið í rafmagninu en gat ekki fundið neitt að því og grunar mig helst að búst mælirinni hafi rekist í eitthvað á relay spjaldinu og valdið skammhlaupi. Í öllu falli komst bensíndælan aftur í gang þegar ég setti núna tvö 20 ampera öryggi hliðtengd (40 amper samtals) á snúruna. Ég var soldið smeykur um að þetta væri alltof stórt öryggi og ég ætti örugglega eftir að kveikja í bílnum, en það hefur ekki gerst enn og er ég því nokkru rólegri núna. Ætla samt að kaupa mér slökkvitæki á morgun til að hafa í bílnum.

Eftir þessa svaðilför þurfti Kiddi að fara aftur að vinna til að elda kvöldmat handa fólkinu. Við röltum með honum upp á hótel, og hitti ég þar fyrir engan annan en Nóna, sem þangað var kominn ásamt fjölskyldunni til að breyða út fagnaðarerindið.

Við Grétar töltum svo til baka og tókum okkur góða hvíld uppi á herbergi og horfðum á Todmobile á tónleika og nokkur gömul myndbönd með þeirri stórgóðu hljómsveit. Við rifum okkur svo upp úr letinni og fórum út að hlaupa. Þar sem við höfðum hvorugur gert ráð fyrir neinum leikfimi æfingum í ferðinni neyddumst við til að hlaupa á tánum og berir að ofan, og var ég þar að auki í gallabuxum. Þetta hefur sjálfsagt vakið mikla undrun og hneikslan innfæddra, en okkur varðaði ekkert um það. Hlaupið var hið skemmtilegasta með ýmsum hindrunum, svo sem ný lagðri olíumöl (með tilheyrandi beittum smásteinum) girðingum og lækjarsprænu sem þurfti að stökkva yfir.

Um kvöldið var svo grillaður humar og drukkinn meiri bjór ásamt gítar spileríi og almennri gleði. Í morgun var svo lagt af stað í bæinn upp úr hádegi og var ég kominn út á nes upp úr hálf þrjú og er núna mættur á aukavakt upp í vinnu.

Þetta var með öðrum orðum nokkuð viðburðarík helgi þrátt fyrir að ekkert hafi verið SAABast.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?