<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, janúar 22, 2007

Ég fór í stutta hellaferð með Ásgeiri og Steina á þriðjudagskvöldið. Fórum í austanátt og skafrenningi og vorum því feignastir þegar við komumst ofan í Litla-Björn. Það var alveg skafið yfir opið og þurftum við því að grafa niður af því. Það var sérstaklega óþægilegt þar sem opið er ofan í smá lægð, sem afur olli því að skafrenningurinn var beint í andlitið á þeim sem var að moka. Sem betur fer vorum við ekkert mjög lengi að finna opið.

Við Ásgeir vorum báðir með ný og öflug hellaljós og var hellirinn allur annar að sjá. Ekki sambærilegt að skoða hella einhverjum 1500 króna ljósum úr Útilíf, eða alvöru hellaljósum. Ljósið kostaði að vísu 310 dollara (27.000 hingað komið), en það er fyllilega þess virði ef maður ætlar í einhverja alvöru hellamennsku. Í ferðinni fundum við hliðargang sem okkur hefur alveg sést yfir hingað til, og það þrátt fyrir að hafa farið fjórum til fimm sinnum í gegnum hann áður. Þetta skrifast eingöngu á ljósin. Hliðargöngin voru um 50 - 70 metra löng og var frekar lágt til lofts í þeim alla leiðina. Varla meira en 120 cm þar sem hæst var og niður í um 40 centimetra þar sem þrengst var (nema auðvitað innst þar sem þau þrengdust niður í ekki neitt.

Þessi göng og nokkur smærri útskot eru ekki merkt inn á kortið af Litla-Birni sem er að finna í Íslenskir Hellar. Það væri gaman að fara einhverntíman og kortleggja hellinn upp á eigin spítur. Aðeins að kynnast svoleiðis vinnu. Þórisskriða yrði þá að sjálfsögðu mæld og teiknuð líka.

Þegar við vorum loks komnir í gegnum hellinn, eftir að hafa grannskoðað allar sprungur og glufur, var klukkan orðin það margt að við ákváðum að fresta því að fara í Tvíbotna, en það hafði verið á dagskránni að fara í hann líka.

Það var auðvitað skafið yfir opin í þessum enda hellisins líka og þurftum við því að grafa okkur upp úr honum líka. Fyrir ofan hellisopið var smá holrými undir snjónum, þegar ég stakk hausnum upp í það mátti heyra þungar drunu og hvin, og var strax ljóst að veðrið hafði versnað umtalsvert á meðan við vorum neðanjarðar. Það stóð líka heima að þegar við komum upp úr snjónum var bálhvasst og mikill skafrenningur. Var jafvel erfitt að fóta sig þegar upp var komið (hnédjúpur snjórinn átti reyndar þar hlut að máli, Seltirningar detta ekki svo létti í smá blæstri;).

Sem betur fer var bíllinn beint undan vindi frá efra opinu á Litla-Birni og því var gangan til baka ekki svo slæm. Fötin sem voru rök eftir hellinn voru bein frosin þegar við komum aftur í bílinni, og tókst mér ekki að opna rennilásinn á bakpokanum mínum fyrr en hann þiðnaði í bílnum.

Steini tók nokkrar myndir í ferðinni og setti myndasíðuna sína. Tékkið á þeim.

sunnudagur, janúar 21, 2007

For sale: Baby shoes, never used.

laugardagur, janúar 13, 2007

Fyrir þau ykkar sem misstu af eða hafa ekki enn fengið nóg af halastjörnunni sem öllu tröllreið í vikunni, þá getið þið fylgst með henni á myndunum frá SOHO gervitunglinu.

...eða bara á myndinni hér fyrir neðan!


This page is powered by Blogger. Isn't yours?