<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, september 29, 2003

Vaknaði ekki fyrr en klukkan hálf þrjú í dag. Var greinilega orðinn svefnþurfi eftir síðustu nætur (hef greinilega ekki sofið jafn vel í hengirúminu og ég hélt). Eyddi því litla sem eftir var af deginu í letikasti hjá ma og pa. Glápti á restina af fyrstu spólunni af Children of Dune. Ekki alveg nógu sáttur, en er maður það nokkurtíman þegar maður hefur lesið söguna áður? Dreif mig svo á fyrstu karate æfinguna síðan í júní. Það var meiriháttar, þolið er svo sem ekki mikið eftir fjögurra mánaða æfingaleysi, en það verður fljótt að koma.

Ég er með sjóriðu. Ég svaf í hengirúmi í nótt og núna er ég með sjóriðu. Í gær fórum við Johnny í bíltúr austur í bústað til mömmu, pabba og Unnar systur. Þar var okkur boðið upp á kaffi, Betty Crocker og flatkökur með skinku. Við brunuðum svo aftur í Lambafell í veislu til Mosa. Fyrr um daginn hafði litla systir hans haldið upp á sjö ára afmælið sitt og um kvöldið var svo grillveisla Mosa til heiðurs. Við Johnny vorum ekki komnir fyrr en um hálf átta (eftir rúmlega 400 kílómetra akstur), og þá voru ættingjar Mosa að klára að borða. Það kom þó ekki að sök því eins Mosa er vandi þá var vel veitt af mat og drykk og átum við grillað svínakjöt og drukkum Budweiser með. Við sátum síðan strákarnir og drukkum bjór og rauðvín langt fram á nótt og ræddum um heimspekileg málefni eins og tilvist minnis, atferslisstefnu Skinners (duh!) og brjóstastærð. Við lögðum okkur síðan í Brasilísku hengirúmunum hans Mosa undir morgun, og síðan hef ég verið með sjóriðu. Það er soldið sérstakt að sofa í hengirúmi í fyrsta skipti. Maður er skít hræddur við að detta framúr og þorir hvorki að hreyfa legg né lið. En svo var sama hvað maður bylti sér um nóttina aldrei datt maður á gólfið.

Kom heim klukkan fjögur og fór í sturtu. Dreif mig svo heim til ma og pa og horfði á byrjunina á formúlunni (þau voru ennþá fyrir austan). Fór svo í mat til ömmu áður en ég fór á vaktina. Sit núna (með sjóriðu) og læt mér leiðast. Ætla að sækja mér kaffibolla og halda áfram að lesa God Emperor of Dune.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?