<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, janúar 29, 2004

Gaaaaahhhh! of mikill pipar.. ég brennnnnnnn

Ted Rall er alltaf jafn svívirðilega fyndinn. Maður þarf að vísu að vera aðeins inni í pólitíkinn í USofA, en erum við það ekki öll? :)

Það er nú svo sem búið að skjóta nógu andskoti mikið á Howard Dean (sjá mynd) en svona er það bara þegar menn bjóða svona upp á það:


og eftir tæplega fjögur ár sem forseti ammeríku og tvö tilgangslítil stríð og meðfylgjandi fjöldamorð og mannréttindabrot á Generalissimo el Busho öll skot skilið.



Svo er hann líka spilafíkill ;)


og alltaf jafn réttsýnn og opinn fyrir fjölbreytileika samfélagsins


Samlíkingin við Adolf kemur óhjákvæmilega upp í hugann



Annars þá fór ég með Birki að skoða tölvur í gær. Við ákáðum að það væri best að versla við Tölvulistann. Fengum góða þjóunstu þar og verðið er ágætt. Ákváðum að velja bara saman parta sjálfir, og bjuggum til hálfgerða ofurtölvu held ég bara. Við ætlum svo að fara og versla draslið á morgun, og ef við fáum allt sem við völdum þá ætti vélin að verða nánast alveg hljóðlaus og mjög hraðvirk.

Eftir tölvupælingarnar löguðum við svo pústið á saabinum, en það lág utan í boddíinu þannig að það glamraði alltaf í því. Fyrir utan hvað þetta er pirrandi, þá er þetta víst ekkert holt fyrir túrbínuna, og því drifum við í þessu.

Ég var svo að koma ofan úr stjörnukíki rétt í þessu (tók mér pásu frá að skrifa bloggið til að fara upp). Spaugstofan vara að taka upp eitthvað atriði um Mars ferðirnar sem hafa verið í fréttum síðustu daga. Verð að muna eftir þessu á laugardaginn. Jæja nú er það hádegismatur, dæmatímar í eðlisfræði og stærðfræðigreiningu, og svo að gera vinnubók úr eðlisfræðitilrauninni sem ég gerði á þriðjudaginn. Svo ætla ég að skella mér á sinfóníuna í kvöld ef það eru einhverjir miðar eftir. Ef þeir eru búnir þá fer ég bara í bíó með strákunum í staðinn. Þannig að það verður eitthvað minna um lærdóm hjá mér í kvöld.

Svo er ég búinn að vera með Season song með Blue States (úr 28 days later) á heilanum síðustu daga. Skemmtilegt lag.

Er þetta eitthvað betra svona Brynja?

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Látum okkur sjá, hér ætti að byrtast mynd af jörðinni, þar sem þau lönd sem ég hef heimsókt eru merkt með rauðu.


Þið getið svo gert svona mynd fyrir ykkur hér.

mánudagur, janúar 26, 2004

Það er eitt sem fer ótrúlega í taugarnar á mér. Það er þegar ríkið og/eða bæjarfélögin fara í framkvæmdir sem ekkert vit er í. Og ekki síður fer í taugarnar á mér þegar hlutir sem svo augljóslega mundu bæta lífið með tiltölulega litlum tilkostnaði, eru ekki framkvæmdir. En mest af öllu fer þó í taugarnar á mér þegar hlutir eru framkvæmdir sem virkilega er þörf á, en þeim svo klúðrar algjörlega með einhverju rugli. Góð dæmi um þetta eru brýrnar yfir Miklubraut við gatnamót Réttarholtsvegar og Skeiðavogs, og eins brúin rétt ofan við Mjóddina (sennilega er hún yfir Reykjanesbrautina, er ekki alveg með það á hreinu hvar Sæbrautin endar og hin tekur við). Alveg ótrúlegt hvernig hægt er að klúðra jafn einföldum hlutm illilega. Gallinn við þessi tilfelli þar sem góðum hlutm er klúðrað illilega, er að þeir eru orðinir staðreynd og því of seint að gera nokkuð í þeim.

Hin tilfellin eru hinsvegar eitthvað sem ætti hinsvegar að vera hægt að vekja athtygli á og jafnvel þrýsta á að yrðu framkvæmdir. Við skulum t.d. sjá til hvernig þeim tekst til með að hanna brú á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Spurning hvað það verða mörg umferðarljós á þeim og hvað það verða margar hraðahindranir, jafnvel að þeir verið frumlegir og setji svona þrenginar til að hægja á umferð. Gætu jafnvel bara notað gömlu ölfusárbrúnna. Hún er örugglega fín í þetta, bara setja svona tvö þrjú ljós á hana, þá er þetta komið.

En svona að öllu gamni slepptu þá eru nokkrar tillögur sem ég hef og held að sé vert að skoða nánar.

Sú fyrsta er að hafa ókeypis í strætisvagna. Ég nota ekki strætó nema tilneyddur. Tek meira að segja oft leigubíl frekar en að fara með strætó. Ég er viss um að ég væri mun jákvæðari í garð þeirra ef það væri ókeypis í þá. Eini gallinn sem ég sé við þetta er aukinn kostnaður fyrir rekstraraðila Strætó (sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu). Á móti kemur einhver minnkun á umferð og þar af leiðandi minna slit á götum og færri umferðarslys. Þó yrði þessi minkun sennilega ekki það mikil að nokkru muni. En ég held mig samt við það að þetta ætti að vera ókeypis. Finnst það sjálfsögð þjónusta við almenning.

Annað sem mig langar virkilega að sjá gerast, og vona að ég eigi eftir að sjá gerast er að farið verði að bjóða upp á Esperanto kenslu í skólum. Best væri nottla ef þetta yrði kennt strax sem fyrsta tungmálið á eftir móðurmálinu (ekki erlenda tungumálið eins og ég var næstum búinn að skrifa :). Ég held samt að þjóðfélagið sé ekki tilbúið í svo róttækar breytingar, heldur þyrfti að byrja smærra og ala þetta upp í fólki. Svona Bene Gesserit style, fyrir ykkur sem hafið lesið Dune seríuna. Ég legg því til að það verði sett inn í námsskrá að farið verið að bjóða upp á Esperanto sem valkost fyrir þriðja mál (sem er reyndar fjórða mál, en kallast einhverra hluta vegna þriðja mál). Það er að fólki veriði boðið að velja hvort það lærir Esperanto, þýsku, frönsku, spænsku eða eittthvert annað mál (eða er kanski bara hægt að velja á milli þessara þriggja?). Ég held að fullt af fólki mundi velja Esperanto, enda mun auðveldar mál að læra en nokkurt hinna og því meira gefandi að læra það. Auk þess sem virkilega er hægt að ná mikilli færni í málinu í þessum fjórum til fimm áföngum (12 einingum) sem varið er í það í menntaskólum. Þessi kennsla mundi svo lita alla árganga sem á eftir koma því þeir væru væntanlega mun jákvæðari gangvart málinu heldur en fyrri kynslóðir. Þetta fólk væri svo komið út á vinnumarkaðinn og þar með í pólitíkina einhverjum 10 -15 árum síðar og gæti farið að hafa áhrif í þá átt að Esperanto kennsla færðist framar í skólakerfið, þ.e. farið væri að kenna esperanto fyrr. Og það því orðið að skyldunámi. Nú og ef að vel tækist til, þá væri aldrei að vita nema önnur lönd færu að dæmi okkar. T.d. eru Færeyingar og Grænlendingar í svipaðri stöðu og við, þ.e.a.s. langt innan við hálf miljón manna sem talar tungumálið þjóðarinnar og því nauðsynlegt að læra önnur tungumál til að geta átt samskipti við aðrar þjóðir. Hin norðulöndin gætu svo fylgt í kjölfarið, þá Pólland (Esperanto er nú einusinn i upprunið þar) og smá saman mundu kostir þess að kunna Esperanto vaxa eftir því sem það yrði útbreiddara og loks mundi allir lifa hamingjusamir til æfiloka. Eða þannig. Reyndar vil ég meina að fordómar þjóða á milli séu að miklu leyti komnir til vegna þess að fólk skilur ekki hvort annað, eða í það minsta illa. Ég held að fordómar í garð nýbúa væru mun minni ef þeir kynnu allir lýtalausa íslensku. Það sama held ég að mundi gilda ef allir gætu haft samskipti á Esperanto. Nú og svo ef við horfum töluvert lengra farm í tíman og ímyndum okkur að Esperanto væri orðið nokkurskonar alheims samskipta mál, þá er ekkert smá mikill tími sem mundi sparast í kennslu ef hægt væri að sleppa allri tungumála kennslu nema móðurmáli og Esperanto. Þannig væri hægt að kenna meira af öðrum mikilvægum greinum og auka þar með framleiðni skólanna. Ekki bara á íslandi heldur í öllum heiminum. Enginn smá sparnaður það. En af því að lýðkostnir stjórnendur sjá ekki lengra en fram að næstu kostningum í stað þess að virkilega hugsa til framtíðar (næstu 400 ára í stað 4 ára t.d.) þá er mjög erfitt að framkvæma svona hluti nema í smáum skrefum.

Næsta sem mig langar að tala um er uppeldi á börnum. He he, þið bjuggust ekki við þessu, var það nokkuð? Að mínu viti er orðið stórt vandamál hvað fólk telur sjálft sig vera mikilvægt, og með fólk á ég í þessu tilfelli við foreldra þó svo að fullyrðinginn eigi jafn við (flest)alla. Það telur sig eiga rétt á að eiga fullt af tíma fyrir sjálft sig. Það notfærir sér því ódýrustu og þægilegustu barnapíurnar. Sjónvarpið og tölvuna. Þetta er að vísu ekkert nema skammtíma lausn, því þetta kemur alltsaman aftur í bakið á fólki og það neyðist til að takast á við stærri vandamál seinn á lífsleiðinni. Krakkinn verður frekur, gjörsneyddur allri þolinmæði og almennt bara leiðinlegur. Krakkar þurfa mannleg samskipti til að læra mannleg samskipti! Fyrir mér gæti þetta ekki verið augljósara, en fólk kýs að vera blint og velja þægilegu leiðina.
Þetta er nú þegar orðið stórt vandamál í skólum, kennarar ráða ekkert við marga nemendur og við taka sálfræðingar og geðlæknar, pillur og meðferðir (fyrir krakkana, foreldrana og kennarana =8-) Besta leiðin sem ég sé út úr þessu, auk þess sem hún hefur marga fleiri góða kosti í för með sér, er að kenna bardagalistir í skólum. Og það strax frá 6 ára aldri. Nei ég á ekki við að það eigi að fara að kenna sex ára börnum einvherjar brútal sjálfsvarnar tæknir. Það verður að byrja á byrjuninni, að læra einföldu en mikilvægu tæknirnar. Upphitunaræfingarnar, teigjurnar, armbegjur, magaæfingar, stjörnuhopp, hlaupa og bara allt sem fylgir, en gera það samt allt út frá forsendum bardagalistanna. Kílingar, spörk, blokk og lásar koma seinna og enn síðar kata og kumite (eða sambærilegt fyrir aðrar bardaglistir, ég skrifa þetta auðvitað út frá minni reynslu af Goju-Ryu karate-do). Þetta ætti að vera inni í stundatöflu á hverjum degi. Ég geri ráð fyrir að þið ykkar sem lesið þetta og hafið aldrei æft neina bardagalist, haldið að það eina sem maður læri á slíkum æfingum sé að berjast og verja sig auk styrktar og þol æfinga. Ef það væri það eina þá væru bardagalistirnar ekki neitt sem nokkur ætti að læra. Það eru allt sem fylgir með sem gefur þeim gildi: Að bera virðingu fyrir fólki; þolinmæði; íhugun; fullkomna stjórn á líkamanum í flóknum, erfiðum hreyfingum; að þola meiri sársauka; að gefast ekki upp við mótlæti. Þetta eru alltsaman hlutir sem nýtast manni í öllu því sem maður tekur sér fyrir hendur. Þetta ætti að kenna börnum út allan grunnskólan, alla daga vikunnar. Þannig fengju þau góðan hluta af þeirri hreyfingu sem þau þurfa og væru því betur undir það búin að sitja fyrir framan sjónvarpið og tölvuna eftir að heim er komið. En þetta eru nottla bara óraunhæfar útópíu pælingar í mér. Eitthvað sem er ekki að fara að gerast neitt á næstunni.

Jæja, þetta er orðið algjört monster blogg hjá mér, og ég á ennþá eftir að klára tvenn heimadæmi, helst áður en ég mæti í stærðfræðigreininguna klukkan hálf tíu, eftir fjóra tíma. Best að fara að drífa í þessu. En fyrst er það pasta.

sunnudagur, janúar 25, 2004

Ég játa mig sigraðan. En það er ekki þar með sagt að ég gefist upp. Ó nei ég verð bara að fara hina leiðina að vandamálinu (hugsa út fyrir kassann sko!). Hvað er ég að bulla um? Ég er að bulla um sólarhringinn og að snúa honum. Ég hef eftir ítrekaðar tilraunir síðustu tveggja vikna komist að því að ég get ekki snúið sólarhringnum við til vinstri. Þ.e.a.s. að fara fyrr að sofa og vakna fyrr (sem er augljóslega að snúa sólarhringnum við til vinstri). Fyrir mér jafngildir það að fara alltaf að sofa á sama tíma, því að fara alltaf fyrr að sofa samkvæmt líkamsklukkunni. Með öðrum orðum, mér er eðlislægt að fara alltaf seinna og seinna að sofa og vakna þar af leiðandi seinna líka. Minn sólarhringur er að minnstakosti 28 tímar. Þannig að reynið þið ykkar sem finnst fínt að fara alltaf að sofa á sama tíma að færa ykkar sólarhring til um fjóra tíma. Gangi ykkur vel.

Núna er ég ca. 6 tímum á eftir því sem ég "ætti" að vera. Þannig að til að ná því þarf ég að færa mig til um 10 klukkutíma (miðað við 28 tíma líkamssólarhringinn minn). Og þar sem ég hef gefist upp á því að reyna þetta, þá ætla ég bara að fara í hina áttina. Enda er það miklu skynsamlegra. Ég vaki bara til ca. 11 annað kvöld og fer svo að sofa þá. Þá ætti að passa að vakna klukkan 8 daginn eftir (á þriðjudaginn) og þar með ætti sólarhringurinn minn að vera orðinn öllu eðlilegri (eða réttara sagt eins og allra hinna. Það væri auðvitað miklu eðlilegra að hægt yrði á snúningi jarðar um svo sem 4 tíma/snúning þanngi að dagurinn væri orðinn 28 tímar. Látið mig bara vita í tíma áður en þetta verður gert, þannig að ég geti keypt mér hlutabréf í öllum helstu klukku og úraframleiðendum heimsins.).

Til að mér takist nú að vaka alla nóttina verð ég að byrgja mig upp. Kaupa fullt af kóki, og svo eitthvað til að éta í nótt. Held ég sjóði mér kanski bara pasta svona upp úr 3-4, það ætti að vera góð tímasetning. Svo er það bara stærðfræði og kanski smá MSN inn á milli til að halda mér uppteknu alla nóttina. Ég ætti líka að vera orðinn helvíti vel staddur í stærðfræðinni þá. Kanski maður reyni líka að installa nokkrum forritum og læra á þau. Gæti t.d. sett upp LaTeX á XP og Linux, og sjálfsagt er einhver slatti af forritum þarna út sem ég á eftir að fá mér. Svo þarf ég líka að skipta um olíu á saabinum. Veit samt ekki hvort ég nenni því. Geri það kanski bara eftir skóla á morgun. Sjáum til. Ég á örugglega eftir að blogga eitthvað meira í nótt. Er farinn út í 1011 að kaupa kók og pastasósu.

laugardagur, janúar 24, 2004

Ekki komst ég nú yfir allt sem ég ætlaði mér í dag. En ég kenni um svefnleysi og kaffineyslu. Var einhvern veginn hálf eirðarlaus og gat ekki einbeitt mér alminnilega. ÉG svaf ekki nema einhverja 3 tíma í nótt svo þetta er kanski ekkert skrítið. GATT fer núna bara aftast í röðina og ég held ótrauður áfram með plan helgarinnar. Á morgun verður það sem sagt stærðfræðigreining. Vona bara að ég geti sofnað fljótlega því ég ætla að vakna klukkan 10 til að byrja. Og það verður ekkert gefið eftir með það, hvort sem ég sofna fljótt eða ekki. Kaffivélin er hlaðin og með mig í siktinu.

föstudagur, janúar 23, 2004

Plan fyrir helgina: Föstudagur: Mikilvægir fyrirlestrar frá 8 til hádegis. Til að auka líkurnar á að ég mæti í þá hef ég stillt upp kaffikönnunni inni í svefnherberginu með vekjaraklukkunni ofan á. Þannig að um leið og ég slekk á vekjaraklukkunni þarf ég ekki að íta á nema einn takka á kaffikönnunni til að hún byrji að hella upp á. Svo þegar kemur að fyrsta snúsi, verður tilbúið nýlagað kaffi á könnunni. Að sjálfsögðu er stendur tilbúinn bolli við hliðina á könnunni, þannig að núna ætti þetta að hafast. Þetta er líka eitthvert rótsterkt og dökk ristað expressó kaffi, og ég setti vel af því í filterinn, svo blandan ætti að ná hjartslættinum og súrefnisupptökunni upp úr öllu valdi.

Þegar ég verð svo búinn í skólanum verður tekið á því í grundvallaratriðum tölvutækni fram til miðnættis, þó með pásu frá sjö til níu fyrir karate æfingu og kvöldmat. Laugardagurinn verður svo tekinn í stærðfræðigreiningu fram til ca. 7, en þá fer það eftir stöðunni hvort haldið verður áfram með stærðfræðigreininguna, eða skipt yfir í greiningu rása. Á sunnudaginn er svo planið að hella sér í greiningu rása fram að kvöldmat og loks eðlisfræði um kvöldið.

Hvers vegna ætla ég að eyða allri helginni í að lesa? Jú vegna þess að ég er búinn að sluxa alltof mikið og er búinn að dragast langt afturúr í öllum fögum. Þetta er þó ekkert óyfirstígan legt, og ef ég held vel á spöðunum ætti ég að komast langt með að lesa upp allt efnið um helgina. Ég reikna kanski ekki öll dæmin, en ég ætti allavegana að komast yfir megnið af lesefninu.

Já og svo verð ég að redda mér MATLAB og læra á það og PSpice. Freysi, veist þú ekki hvar maður getur reddað sér MATLAB? Ég var eitthvað að reyna að leita að þessu á netinu, en gekk eitthvað minna að finna download. Verð að tékka betur á þessu um helgina.

Svo er smá öppdeit á SAABinn. Hann gengur eins og klukka og allt virðist vera í fína lagi á yfirborðinu... en undir niðri krauma þó einhver vandamál, og það sennilega af verri endanum. Hann blæs all svakalega út um öndunina á ventlalokinu (og þar af leiðandi líka út um kvarðarörið). Skemmdirnar á stimplinum hafa sennilega verið meiri en ég gerði ráð fyrir. Ég vona þó að ég geti notað bílinn fram á vor áður en ég þarf að taka vélina upp aftur. Verð bara að skipta oft um olíu (kanski 1000 km fresti?) og spara boostið. Já, það er ekki tekið út með sældinni að vera að reyna að halda svona gömlum bíl í topp standi. Kanski maður undirbúi bara hina blokkina, hóni, skelli í hana góðum sveifarás og nýjum legum og reddi góðum stimplum einhversstaðar. Maður ætti kanski að athuga aftur að hækka þjöppuna á vélinn með n/a stimplum. Svona í tilefni þess að maður er að fá sér MegaSquirt. Gæti líka portað heddið með skemmdu ventlunum. Gera sem sagt allt tilbúið fyrir vorið og skipta svo bara aftur um vél í vor og skella megasquirtinu í í leiðinni.

miðvikudagur, janúar 21, 2004

Úffff. Þvílíkt og annað eins. Ég var á koníaksfylleríi til klukkan 7 í morgun. Fór með Tino og Johnny G að kveðja Don Frezano í gærkvöldi. Við byrjðum reyndar kvöldið á að fara á Eldsmiðjuna og borða eðal pizzur. Eldsmiðjan er sko lang besti pizzastaðurinn á skerinu. No kontest. Massa góðar pizzur og alltaf mega foxy gellur að þjóna til borðs. Og mjög góð þjónusta í þokkabót. Eitthvað annað en á rusl staðnum Pizza Hut. En þar fær maður over priced pizzur sem eru í þokkabót ekkert sérstaklega góðar, og lélegust þjónustu ever. Hef farið þangað þrisvar að borða, og aldrei þurft að bíða undir 45 mínútum. Bara rugl sko.

Freysi kom reyndar ekki með okkur á Eldsmiðjun því hann var að hitti einhverja vinkonu sína ("við eru bara vinir." Jeah right!). En svo fórum við í Laugardalinn og drukkum koníaksflösku sem Freysi fékk þegar hann útskrifaðist úr HR í vor. En þar sem Freysi drekkur ekki Koníak, þá fengum við það verðuga verkefni að klára flöskuna þarna um kvöldið. Sem við að sjálflsögðu gerðum. :)

Pínku þunnur í dag, en samt ekkert til að tala um. Ekkert sem kemst í hálfkvist við þynkurnar mínar hérna í den.

Þvoði svo saabinn áðan og tók nettan rúnt með Birki. Ég er eiginlega orðinn alveg viss um að kveikjan í SAABinum er alltof fljót, og það sé ástæðan fyrir því hvað boostið er óstöðugt. Verð að reyna að komast í tíma byssu til að tékka á þessu. En fyrst ætla ég að prófa að fylla hann með V-Power og sjá hvort boostið verið eitthvað stöðugra. Það ætti allavegana að verða það ef þetta er kveikjan. Samt spurning hvort 4 oktön í viðbót sé nóg. Verður að koma í ljós. Jú og svo er eitt. Það er svo mikið kveikjuglamur í honum þegar ég er á boosti. Veit einhver hverju það sætir? Og svona í leiðinn, hvað nákvæmlega er kveikjuglamur? Er eitthvað að slást saman inni í kveikjunni, eða er spennan svona gríðarleg á kveikjunni að það smellur og syngur í henni þegar neistinn fer frá hamrinum yfir í þræðina?

Eníveis, þá ættla ég að stökkva niður í bílageymslu og sækja draslið sem ég gleymdi í bílnum og henda mér svo í bólið (því þótt það hljómi kanski ótrúlega, þá er fátt sem virkar betur á mig til að rétta sólarhringinn við (tékkið á tímasetningunum á síðustu bloggum, og athugið að þetta er tíminn sem ég byrja að skrifa bloggin á, en ekki tíminn sem þau birtast á síðunni), en að vaka heila nótt og drekka koníak. Ég held ég eigi alveg eftir að geta sofna núna.) Góða nótt.

mánudagur, janúar 19, 2004

Þetta er nú bara búinn að vera nokkuð pródöktívur dagur hjá mér. Þrátt fyrir að ég hafi ekki farið fram úr fyrr en klukkan hálf tvö, og það gerði ég bara vegna þess að pabbi hringdi korter fyrir eitt og vakti mig. Það tók mig svo þrjú korter í viðbót að manna mig upp í að drullast á lappir. Ég ætlaði svo að nýta daginn í að læra, ekki veitir víst af. Eftir öll þessi kvöld í bílageymslunni er ég kominn helvíti langt aftur úr námsáætluninni. En rétt eins og með að fara á fætur þá var ég alveg heillengi að koma mér í það. Byrjaði á smá tiltekt á skrifborðinu mínu. Raða einhverju drasli inn í möppur og svona. Þá sprakk pera í loftljósinu mínu og tók allt ljósið út með sér (eru sko þrjár perur í því), ég ályktaði nottla svo að perurnar hlitu að vera raðtengdar og því slökknaði á þeim öllum þegar ein springi). Þetta var einmitt afsökunin sem ég þurfti til að fara út úr húsi og gera eitthvað allt annað en að byrja að læra. Ég dreif mig því í smá bæjarferð: Fór með olíuafganga og fleira rusl í Sorpu, skilaði tveim SAAB bókum sem ég fékk að láni hjá vinnufélaga mínum og kom svo við í byko á leiðinni heim og keypti þrjár nýjar ljósaperur (ég ályktaði sem svo, að fyrst perurnar hefðu nú allar verið settar nýjar í á sama tíma, gæti ekki verið svo lang þangað til að hinar færu líka). Þegar heim var komið kom svo auðvitað í ljós að þær pössuðu ekkert í. Skrúfgangurinn á þeim var alltof stór fyrir perustæðið. ARRRRGGH! Jæja, hvað um það, örlögin voru ekki umflúin og nú var ekki um annað að ræða en að fara að læra. Nú þar sem herbergið mitt var óðum að breytast í myrkrakompu varð ég að byrja á að ryðja til á borðstofu borðinu. Þar komu svo í ljós tvær ljósaperur sem ég fékk í jólagjöf með lampa sem ég átti alltaf eftir að tengja. Ég byrjaði því á að tengja lampann (hann notar sko bara eina peru) og setja upp í hillunum þar sem hann á heima. Tók því næst peruna og skrúfði í lofljósið, og... ekkert. Helvítis. Hvur andskotinn er að núna? Þegar hér var komið var ég orðinn fúll og pirraður á þessu ljósaveseni og svangur í þokkabót. Og ekkert byrjaður að læra. Djöfulls rugl, dagurinn var allur að gloprast úr höndunum á mér. Ég slafraði því í mig einni núðlusúpu og drakk nokkur glös af kóki með. Hennti svo draslinu í vaskinn og las svo stærðfræði í ca. tvo og hálfan tíma. Skrapp svo til mömmu og pabba og hennti kvöldmatunm þar (gúllas með kartöflumús og grænum baunum) inn í örbylgju og slafraði í mig. Rétt heilsaði upp á gamla settið þar sem þau sátu fyrir framan sjónvarpið og horfðu á eitthvert bull um lögleiðingu kannabis efna. Dreif mig svo heim aftur og lærði í u.þ.b. klukkutíma í viðbót, og var þá kominn með alveg nóg af stærðfræði og ákvað að taka smá saabotage.

Eftir smá rannsóknarvinnu komst ég að því að ég get ekki notað olíuþrýstingsskynjaran sem er í bílnum, því hann er þannig úr garði gerður að hann sýnir eingöngu ef olíuþrýstingurinn er kominn niðurfyrir 0,3 - 0,5 bör (ekki 2,5 eins og ég hélt alltaf... veit ekki hvaðn ég hef fengið þá tölu?). Það var því ekki um annað en að prófa að tengja vatnshitamælinn sem er búinn að liggja í saabinum frá því í sumar einhverntíman. Og viti menn, það virkaði bara fínt :) Það er að vísu ekkert sérstaklega snyrtilega gengið frá vírunum inni í bílnum, þar sem þeir eru teipaðir ofan á mælaborðið. Það er bara svo mikið verk að fara að rífa allt mælaboriðið úr honum að ég nenni því ekki. Ég bíð bara með að ganga frá þessu þangað til ég fer að tengja MegaSquirtið. Enda ætla ég þá að rífa allt gamla rafkerfið sem ekki tengist ljósum og aukabúnaði úr bílunum og ganga almennilega frá öllu saman. Það er líka spurning hvort ég losi mig ekki bara við vatnshitamælinn þá enda sé ég þá vel vatnhitann á MegaView skjánum og mælirinn því orðinn óþarfur. Frekar að fá sér þá skynara fyrir olíuþrýstingsmælinn.

Núna þegar ég setti vélina aftur í setti ég líka í hann Calix vélahitara. Ég er aðeins búinn að vera að prófa hann í vikunnni og er núna búinn að læra vel á tímarofann sem ég keypti í Bykó til að kveikja og slökkva á honum. Klukkan 6 á morgnana byrjar hann semsagt að hita upp kælivatnið á blokkinni, og þar með blokkina sjálfa og heddið. Klukkan 9 slekkur rofin svo á straumnum ef ég hef þá ekki þegar tekið úr sambandi. Sem er mjög sniðugt ef maður kemst ekki á fætur til að taka úr sambandi, t.d. ef maður er veikur eða ef fellur niður fyrirlestur eða eitthvað (nei þetta er ekki til þess að ég eigi auðveldara með að sofa yfir mig, enda geri ég það aldrei. Hóst hóst :þ). Svo mældi ég líka viðnámið milli pinna 3 og 6 á loftflæðismælinum og stillti það eftir leiðbeiningum frá Nóna. Viðnámið var um 320 óhm, en á að vera 380 óhm. Saabinn hefur því verið alltof ríkur, enda er hann töluvert þýðari eftir þessa breytingu heldur en fyrir. Nú er svo bara að sjá hvort þetta og vélahitarinn skili ekki eitthvað minni bensíneyðslu. Þetta ætti allavegana að gera það.

Jæja þetta er orðið gott, best að hundskast í bólið. Góða nótt.

föstudagur, janúar 16, 2004

Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til að starta SAABinum í kvöld, var loks ákveðið að skipta um kerti í honum. Eftir það hrökk hann í gang við fyrsta start. Hann var alveg ógurlega hávær til að byrja með, ventla glamur skrattans og pústið nottla eins og það er. En eftir smá stund lagaðist þetta og nú er hann bara hávær. Ventla glamrið smá minkaði, og erum við félagarnir á því að þetta hafi verið fyrst og fremst vegna þess þetta er í fyrsta skipti sem heddið var notað frá því að það var planað og fræst úr ventlasætunum í sumar. Allavegana gengur SAABinn nú mjög vel og ég hef bara ekki yfir neinu að kvarta. :)

Ég lofaði ykkur líka að henda inn einu lagi með Killswitch Engage og ætla ég nú að uppfylla þetta loforð. Lagið heitir Numbered Days og er 4.205 Kb að stærð: Numbered Days. Í góðmennsku minni skellti ég líka inn öðru lagi. Það er líka með hljómsveit sem ég hef ný uppgötvað. Hún heitir Siouxsie and the Banshees, en þó svo að ég sé nýbúinn að uppgötva hana þá er hún alls ekkert ný af nálinni. Var stofnuð 1976 og hætti störfum 1996, og gaf út einhvern helling af plötum. Tékkið á síðunni, þó ekki sé nema fyrir hvað hún er flott. Allavegana þá heitir lagið með þeim Israel og er 4612 Kb: Israel. Það er kanski rétt að taka það fram að Siouxsie er ekki metal band eins og Killswitch, þannig að ykkur gæti reyndar líkað lagið. Ættuð allavegana að þola að hlusta á það.

Já og svo vil ég óska Freysa og félögum til hamingju með verðlaunin.

fimmtudagur, janúar 15, 2004

Eins og þið takið eftir þá er liturinn eitthvað að breytast hérna. Ég er að vinna í því að koma blogginu yfir á HÍ síðuna mína, þannig að þið megið búast við smá breytingum hérna næstu daga. Ef síðan er allt í einu horfin þá er hún sjálfsagt komin yfir á http://www.hi.is/~thmj

Eftir um það bil 108 klukkutíma þrotlausa vinnu í saabinum frá því að hann bilaði milli jóla og nýárs hefur ekki enn tekist að koma honum í gang.

miðvikudagur, janúar 14, 2004

Ég er víst búinn að vera helvíti lélegur í að blogga síðustu daga, þannig að hér kemur smá uppdate. Saabinn er ennþá bilaður, en er að skríða saman og kemst vonandi í gang í kvöld (það er samt ekkert víst, síðust tvö kvöld hef ég haldið að mér tækist að klára hann og ekki er hann enn kominn í gang, þannig að öll framför er af hinu góða). Á þriðjudaginn síðast vann ég síðast vinnudaginn minn þangað til vor (vonandi). Skólinn byrjaði svo á miðvikudaginn. Mér líst nú bara ágætlega á þetta svona til að byrja með. Ég virðist loksins hafa dottið niður á deild sem henntar mér (rafmagns- og tölvuverkfræði).

Pantaði MegaSquirt ásamt Relay borðinu, Stimulatornum og MegaView. Þetta ætti allt að vora komið til mín upp úr miðjum febrúar, og svo verður bara að koma í ljós hversu vel mér gengur að finna tíma til að setja þetta saman. Ég held allavegana að þetta verði cool project. Ég verð víst bara annar maðurinn hér á landi til að fá mér MegaSquirt, sem er cool :)

Hljómsveit dagsins er Killswitch Engage. Killswitch Engage spila hraðan og góðan metal samt án þess að þess að úr verði einhver grautur. Soldið mikið, en vel, pródúserað þannig að hljómurinn er hreinn og flottur. Þetta finnst mér alltof oft vanta þegar svona tónlist er annars vegar. Ég skal henda inn einu lagi með þeim um leið og heimasvæðið mitt í HÍ opnar (ætti að gerast strax á morgun.

Annars talandu um tónlist. Þegar ég fór á djammið þarna milli jóla og nýárs (þegar ég náði mér í hálsbólguna, sem ég svo drekkti í koníaki og viskí á gamlárskvöld/nýársnótt) þá var ég í tvítugs afmæli hjá Önnu Pálu frænku minni og einhverri vinkonu hennar (sem ég kann ekki frekari deili á). Eníveis þá var þetta hörku skemmtilegt partí með hinum ýmsu skemmti atriðum, hvert tónlistar atriðið á fætur öðru, ræður og almenn gleði. Þegar ég kom á staðinn tók á móti mér mjög skemmtilegur blús af bestu gerð. Þar var það Ragnheiður Gröndal ásamt hljómsveit sem söng og skemmti gestum. Það var tvennt sem sló mig sérstaklega við hana: Í fyrsta lagi þá fékk ég massíft Dejà vú þegar ég sá hana og var viss um að ég hefði séð hana einhversstaðar áður... en kom því samt engan veginn fyrir mig hvar eða hvenær það hefði verið. (það kom svo í ljós síðar um kvöldið að hún söng með SKE á Hróarskeldu í fyrra). Hitt var hvað hún er massíft lík Rachel Wiesz. Hún er annað klónið af celebrity sem ég hef hitt um æfina (hitt er Silja, en hún er reyndar ekki klón af celeb-i heldur er Natalie Portman klón af henni. En svo ég komi mér nú að efninu þá var ég að borga skráninga gjaldið í HÍ áðan (32.500kr.), og eins og alltaf þá þurfit ég að bíða í massífri röð áður en ég gat borgað (hvernig væri að fjölga aðeins starfsmönnum hjá nemendaskrá?). Þegar ég var búinn að standa í röð í ca. 30-40 mínútur og ganga frá mínum málum var ég næstum kominn með tremma af kaffiskorti og tölti niður í kjallara á Aðalbyggingunni og fékk mér kaffibolla á kaffistofunni þar og fletti í gegnum mogga sem lá á einu borðinu þar. Inni í þessum Mogga var aukablað um íslensku tónlistarverðlaunin og þar sá ég semsagt að téð Ragnheiður er tilnefnd bæði sem söngkona ársins og fyrir besta lag. Óska ég henni hér með til hamingju með það. Hún og Bryndís, vinkona hennar, sátu síðan hjá mér og Helga bróður og drukku bjór, og svo röltum við í bæinn í 12 stiga gaddi og roki og ég fékk hálsbólgu.

Þetta var saga dagsins. Þetta var líka blogg dagsins, og það sem meira er, sennilega það mesta sem ég hef skrifað af linkum í einu bloggi. Takk fyrir.

Ég er svo þreittur að ég veit ekki hvort mig langar meira til að fara að grenja eða hlaupa inn á klósett og æla.

fimmtudagur, janúar 01, 2004

Nei, ég er ekki búinn að gefast upp á að blogga. Hef bara haft mikið að gera... mikið af óvæntum atriðum sem kröfðust úrlausna. Saabinn bilaði á besta tíma, klukkan 06:45 að morgni 22. des fór hann ekki í gang, og vegna vinnu og jólagjafa kaupa komst ég ekki í að gera við hann fyrr en að kvöldi 26. des. Þá kom auðvitað í ljós að ég hafði lánað Kjartani, nýbökuðum Saab eiganda, rafmagnsteikningarnar mínar, þannig að viðgerðin varð að bíða til morguns. Það tók svo ekki nema hálftíma að finna bilunina þegar ég var kominn með teikningarnar. Bílinn hrökk í gang þrátt fyrir að rafgeymirinn væri kominn niður í 10,5 volt. Þar sem ég hafði gert ráð fyrir því að vera miklu lengur að finna út úr þessu ákvað ég bara að vera duglegur og laga lekan í kælikerfinu í leiðinni. Það var nú svo sem ekki mikil viðgerð heldur, mér nægði að skipta út lokinu á vatnslásnum og þá var allt komið í lag. Fékk mér svo góðan bíltúr til að hlaða rafgeyminn. Daginn eftir var svo roleplayað fram á nótt, og þegar halda átti heim fór saabinn ekki í gang... aftur. Þannig að ég varð að fá far heim. Var að vinna daginn eftir, og fór svo með pabba um kvöldið að reyna að draga hann í gang (héldum að startarinn hefði kanski gefið upp öndina). Ekki dugði það, dekkin læstust bara þegar ég sleppti kúplingunni, en við kenndum um lélegu færi, enda hafði snjóða helvíti mikið þennan dag. Daginn eftir sýndi Birkir mér enn og aftur fram á það að hann er besti vinur sem hægt er að hugsa sér. Hann bauðst, óumbeðinn, til að fara að skoða saabinn og reyna að finna bilunina. Þegar ég kom heim úr vinnunni var hann búinn að rífa allt rafkerfið af startaranum og langt kominn með að taka hann úr. Okkur grunaði nefninlega að start kransinn gæti verið fastur í kúplingspressunni, eða að bendixinn hefði beglast og fest í kasthjólinu. Startarinn reyndist svo bara vera í fínasta lagi og eru því allar líkur til að vélin sé einfaldlega úrbrædd eins og maður segir. Kapút. Einhversstaðar þarna í millitíðinn fór ég svo á djammið og náði mér í þessa líka fínu hálsbólgu þannig að ég er varla búinn að vera nema hálfur maður á meðan ég hef staðið í þessari seinni bilun. Það er smuga til þessa að þetta sé beiglaður ventill og er það óskandi því þá á ég annað hedd og ventla og tilheyrandi og get bara skellt því í, en ef á versta veg fer þá ætla ég að skipta um vél aftur og setja gömlu vélina í. Enda var hún í fínu lagi síðast þegar ég gáði (í ágúst). Jæja, klukkan er víst orðinn sjö þannig að ég er að spá í að fara að henda mér í rúmið. Góða nótt og gleðilegt ár.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?