<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Helgi bróðir var að hringja frá Austurríki. Hann er að koma heim núna á miðvikudagskvöldið og ætlar svo að halda þrenna tónleika hér heima. Þá fyrstu klukkan hálf níu á fimmtudagskvöldið í Félagsheimili Seltjarnarness, þeir næstu verða klukkan 15:10 í beinni útsendingu á rás tvö á föstudaginn og klukkan 22:00 sama kvöld á Gauknum. Svo er diskurinn hans líka að koma út hér heima, þannig að það er allt að gerast hjá littla bróður (þó hann sé reyndar aðeins stærri en ég, bölvaður;).

Endilega reynið að mæta á aðra hvora tónleikana og gefið svo öllum sem þið þekkið diskinn í jólagjöf.

Svo óska ég honum líka til hamingju með afmælið, en hann er 26 ára í dag.

laugardagur, nóvember 19, 2005

Ég ætla að reyna að nota helgina til að uppfæra serverinn minn. Það má því búast við einhverjum truflunum á sambandi við hann í dag eða á morgun. Ég er að taka afrit af öllum mikilvægum gögnum sem er að finna á honum og var að ljúka við að kópera gallerýið ásamt fylgihlutum, það voru ekki nema 6666 skrár samtals um 1.17 GB, þar af voru 6009 myndir (3 myndir fyrir hverja og eina sem er í gallerýinu, ein í frímerkja stærð, önnur eins og hún opnast fyrst og svo ein í fullri stærð). Þetta voru 1.16 GB, mér finst það nú nokkuð gott. 2003 myndir á 7 mánuðum (gallerýið er búið að vera uppi síðan 12. apríl á þessu ári). Nú þarf ég bara að klára að taka afrit af helstu config skrám og þá get ég uppfært. Ef allt fer eins og til er ætlast þarf ég svo ekkert á þessum afritum að halda, en better save than sorry eins og kaninn segir. Það var nú líka alveg kominn tími á að taka afrit af myndunum. Væri ekkert gaman að tapa þeim öllum.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Mig langar í vél til að stöðva tímann. Þ.e.a.s. stöðva tímann án þess að ég stöðvist á meðan. Það er svo margt sem ég þarf að komast yfir:

Í fyrsta lagi að sofa út á morgnana. Væri tilvalið að tengja hann við snús takkann á símanum. Forrita símann til að snúsa í tvo klukkutíma í senn og stoppa tímann á meðan. Það væri passlegt.

Svo eru það öll formannsstörfin sem ég er búinn að taka að mér (ég er týpan sem kann ekki að segja nei þegar það er vælt í mér að taka að mér einhver verkefni. Fæ alltaf massa samviskubit ef ég reyni að neita svoleiðis). Ég get alltof lítið sinnt Stjörnuskoðunarfélaginu, hef varla farið út í stjörnukíki í vetur, hvað þá sinnt félagsstarfinu. Húsfélögin (bæði í stigaganginum og bílageymslunni) hef ég svo alveg hundsað... hef ekki haldið svo mikið sem einn einasta stjórnarfund, hvað þá framkvæmt eitthvað.

Nú mig vantar tíma til að sinna tölvunum mínum og tölvuáhuga. Mig langar að uppfæra serverinn minn yfir í á Fedora 4, setja upp sjálfvirka afritunartöku fyrir hann. Setja inn eitthvað vefumsjónarkerfi og heimasíðu og spjall fyrir SAAB klúbbinn, og líka heimasíðu fyrir sjálfan mig. Svo langar mig líka að setja upp Fedora í staðin fyrir Windowsið og læra að vinna myndir með GIMP myndvinsluforritinu. Svo langar mig líka að læra smá forritun, á ágætis bækur um C++ frá því ég skráði mig í tölvunarfræðina hér um árið.

Mig langar að hafa tíma til að æfa Karate. Hef ekki mætt á nema örfáar æfingar síðast árið eða svo (hætti að mæta reglulega á æfingar eftir áramótin).

Til að spila á Klarinettið mitt, og þá helst með einhverri góðri lúðrasveit eða jafnvel sinfóníu (en þá þyrfti ég fyrst að fara í spilatíma og ryfja upp og læra meira á hljóðfærið).

Svo eru það SAABarnir mínir. Mig langar mikið að halda áfram með 99una mína, er búinn að kaupa held ég bara allt sem mig vantar til að gera hana að stórskemmtilegum bíl, það eina sem vantar eins og alltaf er tími til þess. Mig bráð vantar að skipta um bremsuklossa að aftan á CD-inum og liðka eitthvað upp á þeim í leiðinni, en þær eru farnar að liggja utan í disknum hægramegin að aftan og kosta mig ótæpilegt magn af bensíni. Nú og svo bíður Tanngnjóstur alltaf í geymslum fornbílaklúbbsins.

Mig langar að sjá fleiri bíómyndir (er reyndar búinn að vera duglegur að fara á þessu ári. Næstum jafn duglegur og þegar ég var ennþá í MH).

Mig langar að hlusta meira á góða tónlist. Sitja heima og hlusta á góða sinfóníu með gott koníak eða viskí í glasi. Líka að fara á tónleika, hef ekki verið í áskrift hjá Sinfóníunni í mörg ár. Svo er ekkert lítið framboð á rokk og popp tónleikum sem væri gaman að sjá, og jafnvel einstaka metal tónleikar sem slæðast inn á milli.

Bækur, ég væri til í að lesa fleiri bækur. Þá sjaldan að ég næ að lesa eitthvað þá er það á tíma sem ég ætti að nýta í að sofa. Ég kláraði reyndar eina bók fyrir nokkrum dögum. Það var Skuggabox eftir Þórarinn Eldjárn. Hún var frekar undarleg. Ekki ein af hans bestu bókum, enda orðin nokkuð gömul og Þórarinn búinn að æfa sig á mörgum bókum síðan.

Ég var að eignast forláta myndavél sem mig langar að læra á og nota. Það hefur lengi blundað í mér áhugi á ljósmyndum, en ég hef aldrei látið verða af því að fá mér alvöru myndavél fyrr en núna. Vonandi kemur einhverntíman tími til að gera eitthvað í því.

Svo langar mig óskaplega mikið að hafa meiri tíma til að vera með vinum mínum. Bjóða fólki í mat, hittast á pöb á föstudagskvöldi og drekka einn eða tvo bjóra og bara almennt að tjilla.

Uss þetta er orðið alltof langur vælubálkur hjá mér. Löngu kominn tími á að fara að sofa. Svo væri ekkert gott að eiga svona vél. Ég væri löngu orðinn áttræður ef ég ætti hana. *Andvarp*

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Skoðið Temporary Anesthetics eftir Don Hertzfeldt, því hann er snillingur.

Ég vil þakka Svavari fyrir að benda lesendum sínum (og þar með mér) á ah, l'amour og Rejected eftir Don, fyrir nokkrum árum síðan.

Ég er sem sagt búinn að vera að taka til á Windows tölvunni minni og sjá hvað ég vill geyma áður en ég hreinsa allt út af henni og set upp á henni Linux. Það var við þessa hreinsun sem ég fann þessar tvær æðislegu stuttmyndir aftur.

Hef ekkert meira að segja. Bæ.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Ég keypti mér myndavél í dag. Þetta gerðist frekar spontant. Ég var að grúska á partalistanum að leita að tölvu til að nota í frekari linux tilraunir. Tölvan sem ég keypti í það er orðin alltof upptekin í að vera server til að ég taki hana í svoleiðis. Svo væri líka tilvalið að nota auka tölvuna í afritunartöku. Gengur ekki að vera að hosta fullt af myndum án þess að taka afrit reglulega.

Nú þar sem ég er að renna yfir úrvalið að tölvum á partalistanum rekst ég á auglýsingu fyrir Canon EOS 350D, en það er myndavél sem ég hef horft töluvert til. Eins og glöggir lesendur vita þá átti ég til skamms tíma í vor og sumar, ódýra digital vél úr Elkó. Sú vél endaði svo æfi sýna milli stafs og hurðar á Renault Mégan úti í Malmö í sumar. Það var þó ekki mikill skaði skeður þar sem vélin sú var bæði ódýr og ómerkileg (þrátt fyrir að hún hafi nú tekið ágætis myndir í þeim aðstæðum sem hún réð við). Þessi stutta reynsla mín af Elkó vélinni (Olympus C-310 ZOOM) sýndi mér hvað það er sem ég vil sjá í myndavél (og Olympus vélina vantaði), en þar efst á blaði var hraði. Að maður geti verið snöggur að kveikja á vélinni og taka mynd. En Olympus vélin var svo lengi að því að myndefnið var oftar en ekki löngu farið þegar myndin var loksins tekin.

Canon vélin er búin að vera "raunhæfa" drauma vélin frá því að Olympus vélin gaf upp öndina, en aðrar vélar sem ég hefði haft áhuga á (eins og Canon 20Da) eru ekki raunhæfur kostur þar sem þær eru svo miklu dýrari. Ég fékk vélina allavegana á góðu verði og er mjög ánægður. Þið megið því búast við því að það bætist eitthvað í Gallerýið á næstunni. (o:þ

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Búinn að laga gallerýið. Kíkið á það!

smá viðbót.

Cyanide and Happiness er mikil snilld. Tékkið á því.


þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Sælt veri fólkið. Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir, þá hefur ekki verið samband við netserverinn minn síðustu daga. Þetta er vegna breytinga sem eru að verða á nettenginunni minni, en OgVodafone hætti að selja nettenginu undir nafni linu.net (en ogvodafone eignaðist línu.net í einhverjum skulda skiptum við orkuveituna eða eitthvað í þeim dúr). Þetta hefði þó ekki átt að hafa í för með sér sambandsleysi fyrir mig. Aftur á móti var Orkuveitan á sama tíma að endurnýja allan endabúnað á ljósleiðaranum og það hefur valdið þessum truflunum á netsambandinu mínu (hef ekki haft samband nema ca. helminginn af október). Þetta er aftur komið í lag í bili og er ég kominn með nýjustu græjur og nettenginu hjá Skýrr. Þetta er mér að kostnaðarlausu fram að áramótum, en þá verður farið að rukka fyrir þessar tengingar. Nú þegar eru nokkrir aðilar farnir að bjóða tengingar í gegnum ljósleiðaran, og ætla ég á næstu dögum að leita tilboða hjá þeim. Þegar ég verð svo búinn að ákveða hvert ég beini viðskiptum mínu þá ætla ég að drífa í að skrá mig þangað svo ég fái endanlega ip-tölu svo þið, notendurnir á servernum mínum, þurfið ekki að verða fyrir frekari truflunum. Þegar þessi mál verða svo frá gengin ætla ég að annaðhvort kaupa mér lén svo þið getið hætt að þurfa að muna ip tölur endalaust enda eru þær leiðinlegar.

IP-talan sem ég er með þessa stundina er 82.221.56.31 og verður hægt að nálgast myndiragalleríið þangað um leið og ég er búinn að finna út hvernig á að setja inn nýja ip tölu í gallery.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?